Hrafnagil: Akstur hafinn um nýja veginn

Umferð hefur verið hleypt á nýjan veg austan við Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit. Þjóðvegurinn lá í gegnum byggðina en síðustu ár hefur verið unnið við byggingu nýs vegar og Eyjafjarðarbraut vestri sveigir nú austur fyrir þorpið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Þorgeir Baldursson tók í gær.
Horft yfir Hrafnagilshverfi og austur yfir Eyjafjarðará áður en framkvæmdir við nýja veginn hófust. Laugaland fyrir miðri mynd í fjarska. Mynd af vef Eyjafjarðarsveitar.
Framkvæmdir við nýja veginn hófust sumarið 2022. Þéttbýlið í Hrafnagili hefur byggst hratt upp á undanförnum árum. Um síðustu aldamót bjuggu um það bil 135 manns í þorpinu, íbúar voru orðnir 260 fyrir fimm árum en eru í dag um 350.
Auk þess að byggður var nýr vegur sem sveigir út í Eyjafjarðará voru byggðar heimreiðar og tengingar inn í þéttbýlið af nýja veginum.
Þjóðvegurinn lá í gegnum byggðina, sem fyrr segir, og óskaði sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit eftir því að vegurinn yrði færður út fyrir þorpið, fyrst og fremst til að auka umferðaröryggi enda er hraði umferðar í gegnum þorpið oft mikill, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Meðalumferð á ári um Eyjafjarðarbraut vestri árið 2020 var um 1470 bílar á sólarhring.
„Með auknum íbúafjölda hefur uppbygging íbúðahúsnæðis í þorpinu vaxið. Land sem verður til við færslu þjóðvegarins er dýrmætt byggingarland sem mun stuðla að enn meiri uppbyggingu í þorpinu,“ segir á vef Vegagerðarinnar.
Einhver frágangur er eftir við nýja veginn og Akureyri.net er ekki kunnugt hvenær hann verður formlega tekinn í notkun. Umferð um um vegarkaflann hefur gengið vel síðustu daga og ljóst að hann mun breyta miklu fyrir íbúa Hrafnagilshverfis.


Aðventa

Magnús verkefnastjóri í gervigreind við HA

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Lýðræði á tímum gervigreindar
