Fara í efni
Framhaldsskólar

„Stóraukið fjármagn“ þarf á næstu árum til framhaldsskólanna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur lagt áform um sameiningu framhaldsskóla – þar á meðal Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri – til hliðar að sinni, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.

Ráðherra lýsti þessu yfir á Alþingi í dag þegar sem fram fór sérstök umræða um sameiningu framhaldsskóla. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, var málshefjandi.

Nemendur MA mótmæltu harðlega áformum ráðherra um sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, meðal annars á fundi á Ráðhústorginu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ásmundur Einar sagði þegar hann kynnti áform sín í byrjun september, og vísaði í niðurstöðu stýrihóps um eflingu framhaldsskóla, „að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorun um sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu.“

Hann var gagnrýndur harðlega í kjölfarið, sakaður um að áformin byggðust ekki á farsæld barna eða menntastefnu heldur snerist málið um peninga. Og við umræðurnar í dag varð ráðherra einmitt tíðrætt um fjármagn. 

Þarf aukinn stuðning og ... aukið fjármagn

Ráðherra sagði m.a. að mæta þyrfti ýmsum áskorunum í framhaldsskólakerfinu.

Hann nefndi eftirfarandi:

  • Stóraukinn fjölda nemenda sækir á starfsbrautir framhaldsskóla, nemendur með einhvers konar fötlun og sú þróun mun halda áfram á næstu árum.
  • Stóraukinn fjöldi nemenda af erlendum uppruna kemur inn í framhaldsskólakerfið og það mun aukast á næstu árum. Þeir nemendur eru ekki eins vel undirbúnir og aðrir og þurfa meiri stuðning til að komast í gegnum skólann.
  • Fleiri en áður eru hvorki á vinnumarkaði né í framhaldsskóla. Miklu betur þarf að ná utan um þann hóp í framhaldsskólakerfinu.
  • Þeim fjölgar mjög sem vilja fara í verknám. Kostnaður við þá nemendur er mun meiri en þeirra sem fara stunda bóknám.

Allt þetta kallar á, sagði ráðherra, aukinn stuðning og aukið fjármagn þarf til þess að fylgja þessum nemendum eftir.

Kerfið er fínt í dag ef ...

„Við viljum að nám sé fyrir alla. Við viljum geta mætt öllum þessum nemendum en hver er staðan og hvernig mætum við þeim? Kerfið er fínt í dag ef við ætlum ekki að ná auknum árangri með þessa nemendur. Ef við ætlum ekki að vera tilbúin á næsta og þarnæsta ári til þess að grípa þá, þá þurfum við í raun ekki kerfisbreytingar í framhaldsskólakerfinu.“

Frá fundi Ásmundar Einars Daðasonar sem nemendum MA og VMA í Hofi í haust. 

Ásmund Einar tók þannig til orða að aflið til að gera þær breytingar sem hann teldi þurfa væri meðal annars fjármagn. „Við mátum það svo að það þyrfti stóraukið fjármagn inn í kerfið á næstu árum til þess að mæta þessu.“

Hann sagði ljóst að framhaldsskólar fái aukið fé á næstu árum, en ekki nóg til þess að hægt yrði að mæta lögbundnum skyldum, til dæmis gagnvart áðurnefndum nemendum.

„Gríðarleg pólitísk samstaða“

Ráðherra sagði að vegna þessa hefði verið teiknaðar upp ákveðnar sviðsmyndir um eflingu framhaldsskólastigsins. Meðal annars hefði verið byggt á upplýsingum frá skólunum sjálfum um laus námspláss, sérstaklega í bóknámi.

„Síðan myndaðist gríðarlega mikil pólitísk samstaða um að reyna að fara aðrar leiðir heldur en þær sem ég hef rætt hér að framan. Því fagna ég,“ sagði Ásmundur Einar og bætti við:

„Ég hef aldrei verið sérsakur hvatamaður um sameiningar skóla eingöngu til að sameina skóla.“

Í framhaldi þessarar miklu pólitísku samstöðu hafi farið fram góð vinna á milli menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og eftir atvikum forsætisráðuneytis, „um leiðir til þess að mæta þessum áskorunum með öðrum hætti, meðal annars með auknu fjármagni.“

Ráðherra sagði þeirri vinnu miða vel áfram og kvaðst vonast til þess að við aðra umræðu fjárlaga verði hægt að kynna breytingar á framlögum til málaflokksins, bæði á næsta ári og ekki síður í fjármálaáætlun til næstu missera. Eftir að þetta samtal hófst, eins og ráðherra orðaði það, „þá ýttum við þessum áformum til hliðar að sinni, á meðan við erum að útfæra nýjar tímalínur.“

Á ráðherra mátti skilja að útfærsla hinnu tímalína snerist um hvernig þeim áskorunum sem hann ræddi um yrði mætt; dýrara kerfi og dýrari nemendum. Hvernig kerfið yrði fjármagnað og hvernig það yrði uppbyggt.