Fara í efni
Framhaldsskólar

Kennarar MA hafa áhyggjur af þætti skólanefndar

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kennarar við Menntaskólann á Akureyri hafa áhyggjur af þeim hluta skipunarferlis nýs skólameistara sem snýr að skólanefnd MA. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var samhljóða á aðalfundi félagsins í morgun. Þar segir að einn umsækjandi hafi ákveðin tengsl við nefndarfólk sem valdi áhyggjum, auk þess sem svo virðist sem skólanefnd hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

Tekið er fram að ályktunin, sem Akureyri.net hefur undir höndum, beinist ekki gegn einstökum umsækjendum heldur vinnubrögðum nefndarinnar. Umsækjandinn sem um ræðir er Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs hjá Akureyrarbæ, og nefndarmennirnir þau Kristrún Lind Birgisdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri félagsins Ásgarður í skýjunum og skólastjóri Ásgarðsskóla, og Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri Lundarskóla.

„Aðkoma skólanefndar að þessu máli verður að vera hafin yfir vafa, skólanum og umsækjendum til hagsbóta. Aðalfundur Kennarafélags MA harmar að ofangreint nefndarfólk hafi ekki farið eftir ábendingum um hugsanlegt vanhæfi, en með því hefði mátt tryggja að þáttur skólanefndar í þessu skipunarferli væri hafinn yfir allan vafa,“ segir í niðurlagi ályktunarinnar.

Ályktunin sem samþykkt var á aðalfundi Kennarafélags MA í morgun er svohljóðandi:

„Aðalfundur Kennarafélags Menntaskólans á Akureyri, haldinn föstudaginn 13. maí 2022, lýsir yfir ánægju með þann fjölbreytta hóp umsækjenda um stöðu skólameistara, sem skipað verður í frá 1. ágúst næstkomandi.

Það er mikilvægt að hæfasti einstaklingurinn úr hópi umsækjenda verði fyrir valinu og að skipunin gangi hnökralaust fyrir sig.

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum sínum af þeim hluta skipunarferlisins sem snýr að skólanefnd MA. Fyrir liggur að einn umsækjandi hefur ákveðin tengsl við nefndarfólk sem valda áhyggjum, auk þess sem svo virðist sem nefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt, eins og síðar verður vikið að.

Þar er annars vegar um að ræða nefndarmann skólanefndar sem gegnir stöðu skólastjóra eins af grunnskólum bæjarins. Einn umsækjenda, sem er sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar, er yfirmaður viðkomandi nefndarmanns og kom að ráðningu hans í umrætt skólastjórastarf árið 2013.

Hins vegar er um að ræða formann skólanefndar sem hefur unnið sem verktaki að gerð og innleiðingu nýrrar skólastefnu fyrir Akureyrarbæ, auk annarra verkefna, sem eru m.a. á borði ofangreinds umsækjanda.

Athygli vekur að í fundargerð skólanefndar frá 7. apríl sl. segir m.a.: „Skólanefnd hefur það hlutverk m.a. að leita að arftaka. Komin eru tvö nöfn á blað en ekkert fast í hendi.“ Aðalfundur Kennarafélags MA bendir á að það er ekki hlutverk skólanefndar að handvelja arftaka.

Starf skólanefndar er vissulega einungis ráðgefandi. Það felst m.a. í því að raða umsækjendum eftir þar til gerðum matskvarða. Líklegt verður að teljast að sá matskvarði samanstandi ekki einungis af hlutlægum þáttum, heldur einnig af þeim huglægu þáttum sem nefndir eru í auglýsingunni um starfið.

Vönduð stjórnsýsla grundvallast á því að vandað sé til verka og að allt sem unnið er hafi þá ásýnd að vandað hafi verið til verka. Aðkoma skólanefndar að þessu máli verður að vera hafin yfir vafa, skólanum og umsækjendum til hagsbóta. Aðalfundur Kennarafélags MA harmar að ofangreint nefndarfólk hafi ekki farið eftir ábendingum um hugsanlegt vanhæfi, en með því hefði mátt tryggja að þáttur skólanefndar í þessu skipunarferli væri hafinn yfir allan vafa.

Aðalfundurinn tekur fram að þessi ályktun beinist ekki gegn einstökum umsækjendum.“