Fara í efni
Fossar Eyjafjarðar

Fossar Eyjafjarðar #1: Ljótifoss

Foss vikunnar er Ljótifoss í Mjaðmá í Eyjafjarðarsveit. Mynd: Svavar Alfreð Jónsson

Fossar Eyjafjarðar verða vikulegur viðburður á Akureyri.net í sumar. Á hverjum sunnudegi birtum við einn foss úr bók séra Svavars Alfreðs  Jónssonar, Gljúfrabúar og Giljadísir, sem er myndabók með fimmtíu eyfirskum fossum, með það fyrir augum að lesendur fái jafnvel hugmyndir að útiveru og fossaheimsóknum í nærumhverfinu. Lagt er af stað í þetta skemmtilega ævintýri í dag.
_ _ _

Foss vikunnar er Ljótifoss. Hann er staðsettur í Mjaðmá í Eyjafjarðarsveit.

Úr bókinni Gljúfrabúar og Giljadísir:

„Ágústínus kirkjufaðir taldi Guð bæði uppsprettu allrar gæsku og allrar fegurðar. Hann lét sér ekki nægja að hugleiða það fagra heldur setti það í samhengi við það ljóta. Í einu rita sinna lýsir hann manneskjum sem gátu flokkast undir að vera ófrýnilegar. Ein hafði hundshaus og önnur var með augun á öxlunum. Ágústínus velti fyrir sér hvernig slíkar manneskjur gætu verið sköpun þess Guðs sem er uppspretta fegurðarinnar. Svar hans var að Guð hefði ekki skapað neitt án þess að gæða það einhverri fegurð. Skynjun okkar mannanna er á hinn bóginn alltaf takmörkuð. Af þeim sökum yfirsést okkur oft það fagra í sköpun hans. Að mati Ágústínusar höfum við því ekki forsendur til að fella þann dóm um menn, fossa og annað úr sköpuninni að það sé ljótt.“

_ _ _

Fossar Eyjafjarðar eru vikulegur viðburður á Akureyri.net. Á hverjum sunnudegi birtum við einn foss úr bók Svavars Alfreðs Jónssonar; Gljúfrabúar og Giljadísir, sem er myndabók með fimmtíu eyfirskum fossum. Tilvitnun í inngang bókarinnar: „Fossar Eyjafjarðar hafa ekki komist í hóp íslenskra elítufossa. Engu að síður eru þeir allir merkisfossar hver með sínu lagi; sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym en aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir skutla sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum.“

Taka ber fram að Svavar er líka með fossa úr Fjallabyggð í bókinni, en hann bjó lengi í Ólafsfirði og telur svæðið vera part af sínum heimavelli í Eyjafirðinum.