Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Vegurinn við Þverá stórskemmdur

Vegurinn er stórskemmdur eins og sjá má. Þarna verður umferð ekki hleypt yfir á næstunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Vegurinn yfir Þverá á Eyjafjarðarbraut eystri, sunnan Akureyrar, stórskemmdist í kvöld. Vegna mikils straumþunga árinnar hefur grafið undan veginum við ræsið sem áin rennur í gegnum, með þessum afleiðingum. Veginum hefur verið lokað og umferð verður ekki hleypt þar yfir á næstunni.

Það var Ari Hilmarsson, bóndi á Þverá, sem fyrstur áttaði sig á að ekki var allt með felldu. „Ég fór þarna um fimmleytið og fannst þetta eitthvað skrítið,“ sagði Ari við Akureyri.net á vettvangi í kvöld. Bærinn Þverá er þarna steinsnar frá. „Þegar ég kíkti á þetta var komið pínulítið gat í brekkuna neðan við handriðið, eins og eitthvað hefði sigið svo ég lét Vegagerðina strax vita. Þetta hefur snarversnað síðan og er enn að versna,“ sagði Ari.

Starfsmenn Vegagerðarinnar og verktakar eru á staðnum til að meta aðstæður. Gífurlegir vatnavextir hafa verið í ám og lækjum í Eyjafirði eins og annars staðar á Norðurlandi síðustu daga. Hiti var 25 stig á Akureyri í gær og fór yfir 20 stig í dag, auk þess sem vindur hefur verið töluverður á Norðurlandi; vorið var heldur kalt og þetta eru því kjöraðstæður fyrir leysingar.

Ökumönnum er bent á að aka Eyjafjarðarbraut vestari eigi þeir leið fram í fjörð frá Akureyri; þá er sem sagt haldið sem leið liggur frá flugvellinum og í átt að  Hrafnagili – eða Jólahúsinu, sem margir kannast við. Þar skammt frá er brú yfir Eyjafjarðará og hægt að keyra austur yfir.