120 í einangrun – átak í örvunarbólusetningu
Fimm bættust í gær í hóp þeirra sem eru í einangrun á Norðurlandi eystra vegna Covid; 137 eru nú í einangrun í landshlutanum. Á Akureyri eru um 140 manns í sóttkví og hátt í 120 í einangrun.
„Mikil fjölgun smita innanlands með vaxandi álagi á heilbrigðiskerfið, smitrakningu og sóttvarnahús er meginástæða hertra takmarkana,“ sagði í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu þegar mjög hertar aðgerðir voru kynntar í morgun. Sjá hér
„Vegna ástandsins hefur orðið veruleg röskun á ýmissi þjónustu Landspítala og skortur er á starfsfólki. Vaxandi álag er á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sama máli gegnir um margar aðrar heilbrigðisstofnanir segir í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra. Þá sé starfsemi rakningateymis í uppnámi, sóttvarnahús að fyllast og álag á Læknavaktina og heilsugæsluna hefur aukist vegna faraldursins. Sóttvarnalæknir segir harðar sóttvarnaaðgerðir nauðsynlegar meðan unnið er að því að ná víðtæku ónæmi í samfélaginu með örvunarbólusetningum sem þegar eru hafnar. Gert er ráð fyrir að boða um 160.000 manns um allt land í örvunarbólusetningu fyrir áramót.“
Bólusetningar á Akureyri
Bólusetningarátak hefst 18. nóvember á slökkvistöðinni á Akureyri. Bólusett verður fjóra fimmtudaga - klukkan 13.00 til 15.00 í öll skiptin.
- 18. nóvember
- 25. nóvember
- 9. desember
- 16. desember
Á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) kemur fram að send verði út boð í örvunarskammta. Þar segir ennfremur að þeim, sem ekki hafa hafið bólusetningar eða ekki getað nýtt sér fyrri boð, sé velkomið að koma á auglýstum opnunartíma á Akureyri. Ekki sé þörf á að hafa strikamerki með í för, bara mæta á staðinn. Börn sem hafa náð 12 ára aldri eru velkomin í fylgd forráðamanna.
Á vef HSN segir jafnframt:
- Öllum 16 ára og eldri býðst örvunarskammtur þegar sex mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu.
- Bólusettum yngri en 70 ára býðst örvunarskammtur þegar 6 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu.
- Bólusettir 70 ára og eldri geta fengið örvunarskammt þegar 3 mánuðir hafa liðið frá grunnbólusetningu.
- Bólusett verður með bóluefni frá Pfizer, óháð því bóluefni sem notað var við grunnbólusetningu.
- Munið að 14 dagar þurfa að líða milli inflúensubólusetningar og bólusetningar gegn COVID-19.
- Þau sem eru búin með grunnbólusetningu og hafa fengið Covid eiga að bíða þangað til frekari fyrirmæli berast.