Fara í efni
Birkir Bjarnason

SA-konur sigruðu SR og fóru á toppinn

Shawlee Gaudreault stendur jafnan fyrir sínu í marki SA. Í kvöld varði hún 17 skot, eða tæp 95% þeirra skota sem komu á markið. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið SA í íshokki vann seiglusigur á liði SR þegar liðin mættust í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld og fór á topp Toppdeildarinnar.

Það voru þó gestgjafarnir í SR sem tóku forystuna þegar Friðrika Magnúsdóttir skoraði strax á 2. mínútu. Amanda Ýr Bjarnadóttir jafnaði í 1-1 snemma í öðrum leikhluta og þannig var staðan þegar þriðji leikhluti hófst. 

Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði annað mark SA þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. SA-konur náðu þá að nýta sér liðsmun eftir að SR fékk dóm, svokallaðan biðdóm þannig að leikurinn heldur áfram á meðan pökkurinn er í leik. SA tók þá markvörðinn úr markinu og fjölgaði útileikmönnum, náði þannig að nýta liðsmunin og skora markið sem skildi liðin að þegar upp var staðið. Heimakonur í SR reyndu hvað þær gátu að jafna og munaði minnstu að það tækist á lokasekúndunni, en munaði þó.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, skemmtilegur leikur þótt ekki hafi mörkin verið jafn mörg og í karlaleiknum fyrr í dag. SA-konur sóttu þó heldur meira og áttu fleiri skot á markið en SR.

Heilstu tölur í liði SA:

Mörk/stoðsendingar: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1/0, Herborg Rut Geirsdóttir 0/1, Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 17 (94,44%).
Refsimínútur: 0.

SA fór á toppinn með sigrinum í kvöld, er með 17 stig úr átta leikjum, en Fjölnir er með 16 stig og á leik til góða á SA. SR er í 3. sætinu með þrjú stig.

Fram og til baka, taka próf, aftur suður og út í heim

Það er ef til vill til marks um hvað áhugafólk í keppnis- og afreksíþróttum leggur á sig að nokkrar í liði SA luku leik skömmu fyrir kl. 23, áttu þá eftir að sitja í rútu heim í nótt og renna væntanlega í hlað á Akureyri einhvern tíma undir morgun og halda svo suður aftur á þriðjudag til að ferðast með landsliðinu til Piestana í Slóvakíu og taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna. Í millitíðinni er svo hjá einhverjum þeirra eins og eitt lokapróf eða svo á mánudag. 

Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptökuna í spilaranum hér að neðan.