Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Mörg framfaraskref hafa verið í uppbyggingu Akureyrarflugvallar undanfarið og nú þegar styttist í 70 ára afmæli þessa mikilvæga samgöngumannvirkis. Verið er að ljúka framkvæmdum við uppbyggingu flugstöðvarinnar með nýrri viðbyggingu sem fyrst og fremst mun sinna millilandaflugi. Samhliða endurnýjun eldri byggingarinnar nánast frá grunni þannig að í framtíðinni verður hægt að sinna samtímis innanlands- og millilandaflugi í kjölfar þess að stækkað flughlað var tekið í notkun síðast liðinn vetur. Ásýnd flugvallarins hefur því tekið miklum breytingum til hins betra.

Alþjóðlegum kröfum mætt

En flugvöllur, ekki síst millilandaflugvöllur er ekki bara flugbrautir og byggingar. Gríðarlegar alþjóðlegar kröfur eru gerðar til starfseminnar svo hægt sé að byggja upp alþjóða umferð. Að því hefur verið unnið ötullega. En uppbyggingu flugvallar lýkur aldrei því öryggi í rekstri þarf að tryggja bestu tæknimöguleika hverju sinni.

Aðflugið treyst

Í skýrslu sem unnin var af starfshópi tveggja ráðuneyta um Akureyrarflugvöll sem millilandaflugstöð árið 2020 kom fram að bæta mæti aðgengi að vellinum úr suðri og lagt til að sérfræðingar Isavia myndu skoða ítarlega hvaða kostir væru í boði. Nú hafa ný aðflug verið tekin í notkun vegna lendinga til suðurs og unnið er að því að bæta aðflug inn á suðurendann þegar lent er til norðurs. Þar eru einkum horft til svokallaðs RNP AR aðflugs sem leyfir lægra aðflugslágmörk og skapar flugmönnum möguleika á að lenda vélum í lágskýjaðra og lakara skyggni en gert er í dag.

Allt Ísland allt árið

Áðurnefndar framkvæmdir byggja á þeirri bjargföstu trú að hægt sé að byggja upp millilandaflug um völlinn, ekki síst að vetrarlagi. Það hefur verið eitt stærsta verkefni ferðaþjónustu sem fjarri suðvesturhorninu stendur að draga úr árstíðasveiflum í fjölda ferðamanna líkt og tekist hefur syðra. Ánægjulegt hefur því verið að fylgjast með samstarfi og góðri vinnu Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans í viðleitni þeirra um að koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll, ekki síst að vetrarlagi. Nú sést uppskera þeirrar góðu vinnu. Flug Easyjet er þar stærsta verkefnið. Nú, annan veturinn í röð, flýgur félagið frá Gatwick, London, og í síðustu viku bættist við flug frá Manchester.

Tækifæri ferðaþjónustunnar

Með því að festa millilandaflug frá Akureyri í sessi skapast ekki einungis stóraukin tækifæri í uppbyggingu ferðaþjónustu heldur gerir landshlutann eftirsóknarverðari til búsetu og styrkir samkeppnishæfni. Góðar samgöngur gegna sífellt mikilvægara hlutverki bæði hjá íbúum og ekki síst fyrirtækjum og þjónustustofnunum. Beint flug að vetri mun færa ferðaþjónustu nýjar víddir og möguleika til vaxtar.

Fljúgum hærra

Það hefur verið draumi líkast, sem nemi og síðar flugumferðarstjóri og nú alþingismaður að fá tækifæri til þess undanfarin 34 ár að fylgjast með og taka þátt í uppbyggingu þessa mikla mannvirkis sem Akureyrarflugvöllur er orðinn.

En ávallt má gera betur. Uppbyggingu nauðsynlegra innviða lýkur aldrei. Ég vil koma að þeirri vinnu áfram sem þingmaður Norðausturkjördæmis.

Njáll Trausti er alþingismaður og í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum í Norðausturkjördæmi.