Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Ný hugsun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu

Breytingar á heilbrigðis- og velferðarþjónustu eru óumflýjanlegar. Þjóðin er að eldast, og við verðum að takast á við nýjar áskoranir með framsýni og ábyrgð. Því er ný hugsun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu okkur mikilvæg. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð staðið fyrir framþróun, nýsköpun og skilvirkri nýtingu fjármuna. Við trúum því að blandað kerfi einka- og ríkisreksturs sé lykill framtíðar í takt við þá nálgun sem Norðurlönd hafa þegar tileinkað sér með góðum árangri.

Saman skilar einka- og ríkisrekstur meiru

Íslenskir vinstri flokkar hafa oft talað fyrir norrænni fyrirmynd í heilbrigðis- og velferðarmálum. Þeir hafa hins vegar verið tregir til að styðja við margt sem Norðurlöndin hafa tileinkað sér með góðum árangri. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að blönduðum einka- og ríkisrekstri sem bætt hefur þjónustu og gert hana skilvirkari.

Ísland stendur frammi fyrir sömu áskorunum og nágrannaþjóðir, hækkandi meðalaldri, skortur á starfsfólki til að sinna störfum og tryggja veitingu þjónustunnar. Að fylgja norrænni fyrirmynd krefst nýrra lausna, svo sem samþættingar þjónustu þvert á skipulagsheild, aukningu á velferðartækni, stafrænna -og fjarlausna, enda ekki nægt starfsfólk til að sinna og viðhalda núverandi þjónustukerfi. Við verðum að hugsa þjónustuna upp á nýtt og nýta lausnir sem tryggja að kerfið þróist með samfélaginu og þörfum fólksins. Nýsköpun, skilvirkni og samvinna eru lykill að því að móta heilbrigðiskerfi sem mætir nýjum áskorunum og veitir þjónustu sem íbúar verðskulda. Landlæknisembættið og aðrar opinberar stofnanir þurfa að taka virkari þátt í þessari þróun sem beinist einna helst að því að móta framtíðarlausnir. Það er ekki lengur ásættanlegt að hindranir séu settar í veg nýrra hugmynda og þjónustuleiða.

Styrkjum Sjúkrahúsið á Akureyri

Í víðfeðmu Norðausturkjördæmi er brýnt að íbúar geti búið lengur heima við öryggi og góðar aðstæður, njóti einstaklingsmiðaðrar þjónustu sem byggir á skipulagsbreytingum, fjarþjónustu og innleiðingu velferðartækni í bland við hefðbundna þjónustu. Þjónusta ætti að laga sig að þörfum fólksins, ekki andstætt. Til að svo megi verða, þarf að styðja þjónustuveitendur á svæðinu, sem standa vörð um sjúkrahúsin.  Sérstaklega Sjúkrahúsið á Akureyri, sem gegnir lykilhlutverki sem varasjúkrahús landsmanna, og tryggja traustan rekstrargrundvöll þess svo það geti mætt þörfum í nútíð og framtíð. Við Sjálfstæðismenn viljum skilvirkari leyfisveitingar, aukna samvinnu opinberra stofnana og annarra þjónustuveitenda og innleiðingu velferðartækni og fjarþjónustu. Við trúum því að nýsköpun sé grundvöllur vandaðs, skilvirks og sjálfbærs heilbrigðis- og velferðarkerfis fyrir alla landsmenn.

Valið er skýrt

Á kjördag er valið skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur tækifæra, framsýni og ábyrgðar. Við ætlum að tryggja að Ísland verði land nýsköpunar og framúrskarandi þjónustu með einstaklinginn í forgrunni. Settu X við D og kjóstu fyrir fólkið, Landið og framtíðin!

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir er í 14. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 30. nóvember