Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Njáll Trausti í 2. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum

Njáll Trausti Friðbertsson verður í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar 30. nóvember. Hann hlaut 72 atkvæði þegar kosið var um það sæti – 43% atkvæða. Flokkurinn hefur nú tvo þingmenn í kjördæminu.

Njáll Trausti er núverandi oddviti flokksins í kjördæminu, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þrjár konur gáfu einnig kost á sér í 2. sætið. Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður hlaut næst flest atkvæði, 67 – sem eru 40%.  

Ekki var gefið upp hve hinar tvær fengu mörg atkvæði: Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík og fyrrverandi alþingismaður, og Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og varaþingmaður flokksins í kjördæminu.

Jens Garðar Helgason er nýr oddviti flokksins og verður í 1. sæti eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Hann sigraði núverandi oddvita, þingmanninn Njál Trausta Friðbertsson, örugglega í kosningu.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Jens Garðar í 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum