Fara í efni
Menning

Svífðu inn í fjallasali með Hljómsveit Akureyrar

Michael Jón Clarke, stjórnandi Hljómsveitar Akureyrar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Ég sá strax hvað hann var mikið efni í píanósnilling,“ segir Michael Jón Clarke um einleikarann úr Svarfaðardal, Styrmi Þey Traustason. „Ég heyrði hann fyrst spila undir hjá Hlyna Gíslasyni, tenór úr Bárðardal og núna þegar hann er að útskrifast úr Listaháskólanum, er mikið tilhlökkunarefni að fá hann sem einleikara í sýninguna okkar.“

Michael Jón Clarke er stjórnandi Hljómsveitar Akureyrar, sem er sinfóníuhljómsveit fyrir áhugafólk. Hljómsveitin hefur ráðist í metnaðarfull verkefni áður, en nú skal öllu tjaldað til þegar hljómsveitin flytur perlur Edvard Grieg undir yfirskriftinni 'Í fjallasal'

Tónleikarnir verða í Hofi á laugardagskvöldið kl 20.00.

„Við ætlum að sameinast Sinfónínuhljómsveit áhugamanna á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur norður og spilar með okkur í Hofi á laugardaginn, en það er Oliver Kentish sem stjórnar sunnanfólki.“ segir Michael. „Það var konan mín sem stakk upp á Grieg, síðast þegar við vorum í Noregi. Fjöllin kölluðu á okkur.“

 

Á efnisskránni er píanókonsert Griegs, þar sem Styrmir Þeyr leikur einleik með hljómsveitinni. Svo leiða saman hesta sína tveir karlakórar á svæðinu, Karlakór Akureyrar-Geysir og Karlakór Eyjafjarðar, en þeir flytja víkingasöng Ólafs konungs, Landssýn, ásamt bassanum Reyni Gunnarssyni. Eitt þekktasta verk Griegs er svo Peer Gynt, eða Pétur Gautur, en hljómsveitin ætlar að flytja þekkta konserta úr því verki líka. 

„Það verður svo svolítil rúsína í pylsuendanum, ef maður getur sagt sem svo,“ segir Michael kíminn. „Við ætlum að ljúka tónleikunum á ástsælu íslensku karlakórslagi, sem vonandi lyftir fólki vel upp úr sætunum. En ég ætla ekki að gefa upp, hvað það verður. Fólk verður bara að mæta!“ 

Tækifæri fyrir tónlistarfólk sem hefur ekki spilað lengi og tónlistarfólk sem fær ekki mörg tækifæri til þess að spila, að koma saman og búa til tónleika

„Það er mikill spenningur hjá okkur fyrir því að sameina hljómsveitirnar,“ segir Michael. „Einnig verður gaman að heyra í píanóinu með hljómsveitinni, en Styrmir er búsettur fyrir sunnan og hefur æft þar.“ Kveikjan að starfi áhugamannahljómsveitar fyrir norðarn kom þegar Michael Jón fór á tónleika með áhugamannahljómsveit frá London. Hljómsveitin spilaði á Íslandi og hafði heimsfrægan blásturseinleikara með. „Ég sagði strax, að þetta væri eitthvað sem ég vildi skapa,“ segir Michael. „Tækifæri fyrir tónlistarfólk sem hefur ekki spilað lengi og tónlistarfólk sem fær ekki mörg tækifæri til þess að spila, að koma saman og búa til tónleika.“

Það er mikil vinna að halda utan um hljómsveitarstarf og viðburði á borð við 'Í fjallasal'. „Ég geri allt í utanumhaldinu og stjórna hljómsveitinni náttúrulega líka. Þetta er mikil vinna og fjármögnun er alltaf áskorun, en það er frábært að hafa sjóð eins og Verðanda, sem styrkir til dæmis þessa tónleika hjá okkur núna. Við myndum aldrei hafa tök á því að leigja stórt tónleikahús fyrir viðburði.“ Auk Verðanda, eru Tónlistarsjóður og Menningarsjóður Akureyrarbæjar bakhjarlar tónleikanna.

Enn eru lausir miðar á tónleikana, en hægt er að nálgast miða á mak.is og tix.is.

 

Styrmir Þeyr Traustason leikur einleik á píanó á tónleikunum. Mynd: heimasíða Tónlistarskólans á Akureyri.