Fara í efni
Menning

Ævintýragluggi í Hafnarstræti 88

Nærmynd af glugganum í Hafnarstræti 88. Mynd: aðsend

Glugginn við gangstéttina, á Hafnarstræti 88, er enn á ný glæddur lífi. Systurnar Áslaug og Brynja, Harðardætur Tveiten, hafa sótt innblástur í Barnamenningarhátíð við hönnun gluggans í apríl. Sýningin ber heitið „Ævintýraglugginn - Einu sinni var“.

Í fréttatilkynningu frá systrunum segir að þær hafi valið leikföng sem hafa flest verið handleikin í gegnum nokkrar kynslóðir, gamalt skóladót og aðra skemmtilega muni. Hlutirnir koma að stórum hluta frá æsku systranna og úr verslun Fröken Blómfríðar, sem Áslaug rekur. 

Glugginn er litríkur og skemmtilegur, eflaust geta eldri kynslóðir séð eitthvað sem hringir nostalgíubjöllunum. Mynd: aðsend

„Sýningin er fyrir alla aldurshópa og tilvalið stopp í göngutúrum og vettvangsferðum. Það er ósk okkar systra að fólk upplifi svolitla töfra og að innsetningin kveiki á góðum minningum hjá fullorðnum og vekji upp forvitni þeirra sem yngri eru. Við vonumst til að sýningin verði uppspretta fyrir skemmtilegar samræður og samveru, ekki síst milli kynslóða. Þarna gefst kostur á að stíga inn í ævintýraheim, svona rétt á meðan gengið er hjá eða aðeins lengur ef staldrað er við og sérstaklega ef hugmyndarflugið er með í för“.

Systurnar eru með nokkrar hugmyndir að því sem hægt er að dunda sér við þegar glugginn er skoðaður:

Telja kisurnar, leita að ljóninu og tígrisdýrinu, finna litlu og stóru mörgæsina og svanina tvo. Það er hægt að velta fyrir sér um hvað bangsarnir eru að spjalla, hvað dúkkurnar á þríhjólinu eru að bralla og búa til sögur í huganum. Það gæti verið gaman að velja sér uppáhaldshlut í glugganum, það sem þykir skrýtnast, fallegast, ljótast og fyndnast, jafnvel taka myndir og kannski bera saman við hvað aðrir völdu og af hverju.

Rúsínan í pylsuendanum er að í rauða póstkassanum við hlið gluggans gæti ef til vill verið glaðningur fyrir gesti. Sýningin stendur út apríl, á meðan Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar stendur yfir.

Systurnar speglast í glugganum sínum. Mynd: aðsend.