Fara í efni
Mannlíf

Góð sál í akureyrsku Viðlagasjóðshúsunum

Íbúar við Háalund á Akureyri fögnuðu nýlega 50 ára afmæli götunnar með garðpartýi. Góður andi ríkir í götunni sem er eflaust arfleifð þess að Vestmannaeyingarnir, sem upphaflega fluttu í götuna, stóðu saman.

Íbúar við Háalund á Akureyri fögnuðu nýlega 50 ára afmæli götunnar. Gatan er sérstök að því leyti að tíu af tólf húsum hennar eru svokölluð Viðlagasjóðshús sem reist voru fyrir Vestmannaeyinga sem flúðu eldgosið í Eyjum árið 1973.

Alls voru um 500 einingahús reist á Íslandi á tuttugu stöðum víðsvegar um landið af Viðlagasjóði í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum árið 1973. Viðlagasjóðshúsin hafa verið töluvert í umræðunni í kjölfar jarðhræðinganna í Grindavík en komið hefur til tals hvort fýsilegt sé að byggja hús fyrir Grindvíkinga í anda húsanna sem byggð voru á sínum tíma fyrir Eyjamenn.

Háilundur er neðst til vinstri á myndinni og Hjarðarlundur hægra megin. Efst til hægri glittir í Verkmenntaskólann. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

María, Halldór Elfar og dæturnar Katla Dögg og Elma Lind fyrir framan Háalund 12. María viðurkennir að hún hafi haft efasemdir um viðlagasjóðshúsin áður en þau fluttu í götuna en gæti ekki verið sáttari í dag.

Upprunalegir eigendur í einu húsi

María Rut Dýrfjörð og eiginmaður hennar Halldór Elfar Hauksson búa í einu af akureyrsku Viðlagasjóðshúsunum við Háalund ásamt tveimur dætrum og er fjölskyldan alsæl í götunni. Þau höfðu nýlega frumkvæðið að því að bjóða íbúum götunnar til samverustundar í tilefni 50 ára afmælis viðlagasjóðshúsanna.

„Fyrstu íbúarnir fluttu inn í desember 1973, um ellefu mánuðum eftir að gos hófst í Eyjum. Síðan þá hafa nýir eigendur komið og farið, en það eru enn upphaflegir eigendur í einu húsi. Við erum aðrir eigendur að húsinu okkar,“ segir María og upplýsir að Viðlagasjóðshúsin við Háalund séu dönsk timburklædd einingahús. Þau eru ekki einu Viðlagasjóðshúsin á Akureyri því í næstu götu, Hjarðarlundi, risu fimm kanadísk einingahús á svipuðum tíma.

Blys og sykurpúðar í garðpartýinu við Háalund 1 sem haldið var í tilefni af 50 ára afmæli götunnar.

Góð hús í passlegri stærð

María viðurkennir að hún hafi verið full efasemda áður en hún varð húseigandi við Háalund. „Ég var ekki alveg sannfærð um ágæti húsanna því þau eru úr timbri og reist með hraði og ég hafði bara búið í steinsteypu fram að þessu. Upphaflega skoðuðum við hús hér ofar í götunni eftir að maðurinn minn sannfærði mig um að gefa þessu allavega séns. Í kjölfarið lagðist ég í töluverða rannsóknarvinnu og komst að því að það lágu fyrir allskonar gagnlegar upplýsingar. Ég heyrði reyndar einhversstaðar að það væri asbest í þökum húsanna, sem hljómaði hræðilega, og hafði samband við fyrrum byggingafulltrúa Akureyrarbæjar sem yfirsá verkefnið. Hann hafði bara gaman af því að fá þetta símtal og gaf mér fullt af gagnlegum upplýsingum og fullvissaði mig um að það væri ekkert asbest,“ segir María.

Bálpannan vígð sumar 2022.

„Við náðum ekki að kaupa húsið sem við skoðuðum, en vorum alveg fallin fyrir þessari skandinavísku stemningu, auk þess sem húsin eru í passlegri stærð, vel skipulögð og hafa staðist tímans tönn vel. Það er líka afskaplega góður andi hérna og húsin mjög notaleg,“ segir María og því voru þau fljót að stökkva til þegar þau fréttu að til stæði að selja annað hús við götuna. Þau náðu að tryggja sér það áður en það fór á sölu og hafa nú búið við götuna í þrjú ár. „Það er Viðlagasjóðshús til sölu í götunni um þessar mundir og ég get hiklaust mælt með staðsetningunni, þetta er æðisleg gata og húsin með góða sál.“

Dætur Maríu í garðinum við húsið fyrsta veturinn eftir að fjölskyldan flutti í götuna. Fjölskyldan hafði nýlega frumkvæðið að því að bjóða íbúum götunnar í garðpartý til að fagna 50 ára afmæli götunnar.

Hús með góðum anda

Það er ekki hægt að segja annað en að María hafi heillast algjörlega af viðlagasjóðshúsunum og segist hafa lesið mikið um þau. Fjölskyldan hefur lika skoðað systurgötu Háalunds í Hafnarfirði, Heiðvang, en þar risu tíu eins einingahús og þeirra á sínum tíma. „Þar hafa húsin tekið meiri útlitsbreytingum en í götunni hjá okkur. Fyrir sunnan hafa íbúar t.d. sett flúr og gluggahlera í þýskum stíl kringum glugga, byggt milli húss og bílskúrs ofl. Húsin við Háalund eru hinsvegar meira og minna óbreytt, það er helst að bílskúrarnir séu mismundandi, sumir eru með einhalla þaki en aðrir með tvíhallandi. Húsin hafa almennt fengið gott viðhald og maður skynjar að fólki hafi þótt vænt um þau. Fyrri eigendur húsana sem við skoðuðum sögðu góðan anda ríkja í götunni og að reglulega hafi verið haldin fræg götugrill, eflaust arfleið þess að Vestmannaeyingarnir sem hingað fluttu stóðu saman.“

Sumarið 2022 skiptu María og Elfar út nokkrum klæðningarborðum á suðurhlið hússins eftir 50 ára endingu. Segir María að húsið hafi staðist tímans tönn vel, þau sé vel skipulögð og skemmtileg skandinavísk stemming í götunni.

50 ára afmæli með blysum og sykurpúðum

María lýsir því að þau hafi flutt í götuna í miðjum covid faraldri. „Það var því ekkert um samkomur hjá íbúunum, en alltaf talað um það, sérstaklega á liðnu ári þegar 50 ár voru liðin frá gosinu. Okkur fannst því tilvalið að endurvekja stemninguna sem við höfðum heyrt svo mikið um með því að bjóða öllum heim í garðinn til okkar í tilefni 50 ára afmælisins. Þetta heppnaðist mjög vel, við kveiktum eld á bálpönnu sem við erum með í garðinum, buðum krökkunum upp á sykurpúða og kveiktum á blysum. Íbúar úr sjö húsum mættu með kakó og smákökur í nesti, saman áttum við huggulega stund saman og erum með plön um að halda grillpartý í sumar,“ segir María að lokum.

Heimamenn steyptu grunnana fyrir viðlagasjóðshúsin við Háalund en Danir komu að utan til þess að reisa þau. Fyrstu íbúar fluttu inn í desember 1973.

Háilundur og Hjarðarlundur eru neðarlega til vinstri við Dalsbrautina. Verkmenntaskólinn efst hægra megin. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.