Fara í efni
Mannlíf

„Ég held ég hafi alltaf viljað verða kennari“

Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrum kennari og rithöfundur. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
„Ég baka á hverjum degi, en sjaldan kökur,“ segir Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrum prófessor og rithöfundur þegar hún býður blaðamanni inn. „Hins vegar, voru tveir bananar á lausu hérna í morgun, þannig að þú færð bananaköku með kaffinu.“ Kristín býr í litlu, snotru húsi við Aðalstræti 52. Húsið fer henni vel og þó að lágt sé til lofts er nóg pláss. Falleg listaverk prýða veggina og á eldhúsborðinu er búið að nostra við kaffi og köku.
 
    • Viðtalið við Kristínu birtist í þremur hlutum. Fyrsti í dag, annar á morgun og sá þriðji á mánudaginn.

„Þetta hús er merkilegt,“ segir Kristín, „Hér bjó Vilhelmína Lever. Hún var sterk kona, fyrsta íslenska konan til þess að kjósa og einnig sú fyrsta til þess að sækja um skilnað, árið 1824.“ Andi Vilhelmínu er ekki mjög þrúgandi yfir bananakökunni, en það er reyndar einmitt skilnaður, sem markar upphafið að vegferð Kristínar til kennslu og lærdóms, og þar sem hún hefur frásögn sína í þessu viðtali.

 

Huggulegt kaffiborð hjá Kristínu. Bananakakan í forgrunni. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Kristín segir að stærstu straumrof lífsins hafi verið skilnaður foreldra hennar þegar hún var tólf ára. „Ég er fædd í Kelduhverfi, og var þar fyrstu mánuði lífs míns. Við fjölskyldan bjuggum síðan í Keflavík í tólf ár eða þar til að foreldrar mínir skildu. Ég var í nokkra mánuði hjá mömmu eftir það. Mamma hafði fundið sér annan mann, en það kom í ljós að honum líkaði ekki við mig,“ segir Kristín. „Eftir að hann tók upp á því að ráðast á mig og berja, þar sem ég var að lesa fyrir próf, kom ég mér út úr húsi, hljóp á sokkaleistunum frá Ránargötu niður á Hagamel. Ég greip með mér nokkrar bækur svo ég gæti lesið fyrir næstu próf, en gaf mér ekki tíma til þess að fara í skó, þá hefði hann náð mér aftur.“ 
 
Kristín hafði engin samskipti við mömmu sína í langan tíma eftir þessa atburði. „Ég fór til pabba, sem bjó í Reykjavík. Ég hafði aldrei séð hann gera handtak á heimilinu á uppvaxtarárum mínum, ég vissi ekki að það væri hugsanlegur möguleiki, að karlmenn gætu gert gagn við heimilsverk. Án þess að finnast neitt athugavert við það, varð ég því húsmóðir þrettán ára gömul.“
Í skátastarfinu fékk ég útrás fyrir stjórnsemina. Ég hef töluverða skipulagshæfileika og leyfði þeim að njóta sín þarna 
Kristín segir að heimilisverkin hafi aldrei verið íþyngjandi og að hún hafi alltaf haft gaman af því að halda heimili. „Mér fannst gaman að þrífa og elda,“ segir Kristín, en hún telur að það hafi hjálpað til að hún hafi ætíð haft létta lund og tekist á við verkefnin sem mæta henni. „Ég náði að leiða erfiðleikana hjá mér,“ segir hún. Unglingsárin í Reykjavík voru ekki tóm heimilisstörf og skólaganga, en Kristín minnist þess með hlýju að hafa verið á kafi í skátastarfi. „Þar var gleði og gaman og fékk ég útrás fyrir stjórnsemina,“ segir hún kímin. „Ég hef töluverða skipulagshæfileika og leyfði þeim að njóta sín þarna.“
 

Þessi mynd af Kristínu 15 ára að þreyta landspróf, var tekin í Austurbæjarskóla vorið 1962. Myndin birtist upphaflega í Morgunblaðinu, fengin á Facebook síðu Kristínar.

„Ég held ég hafi alltaf viljað verða kennari, ég hafði haft góðar fyrirmyndir í Keflavík. Ég fór í Kennaraskóla Íslands, eins og hann hét þá,“ segir Kristín. „Reyndar varð ég fyrir áfalli þegar ég var nítján ára, ég missti minnið um tíma, hugsanlega var ég undir of miklu álagi. Einn af kennurum mínum í skólanum benti mér á að það væri kannski ráð að flytja burt af Reykjavíkursvæðinu, að skipta um umhverfi, sem ég gerði. Það reyndist heillaskref.“
Þau leyfðu mér að heyra að ég væri dugleg og það var eitthvað sem ég hafði sennilega gott af að heyra
Þannig leiddi lífsins fljót Kristínu norður í land, til Akureyrar. „Ég hafði verið hér tveimur sumrum áður,“ segir Kristín. „Ég fékk starf sem vinnukona og varð mjög hrifin af þessum bæ. Mér fannst líka gott að vera í burtu frá öllum heimilisvandamálum.“ Hjónin sem réðu Kristínu til sín í vist voru þau Ármann Dalmannsson og Sigrún Kristjánsdóttir. „Þau voru mikil mektarhjón og þau voru ánægð með mig. Þau leyfðu mér að heyra að ég væri dugleg og það var sennilega eitthvað sem ég þurfti á að halda.“

Það voru ekki bara löngu tímabær hrós sem Kristín græddi á vist sinni á Akureyri þetta sumar. Hún kynntist líka Hallgrími Þór Indriðasyni. Þá var hún 18 ára og hann 16. „Ég þarf ekkert að hafa neitt mjög mörg orð um það,“ segir Kristín. „En Hallgrímur þessi fylgir mér enn í dag og samleið okkar hefur verið mjög ánægjuleg. Er þetta ekki góð kaka?“

Kakan er sannarlega góð, og bökuð af alúð. „Ég get eiginlega sagt að líf mitt hafi verið mjög gott, eftir að ég flutti til Akureyrar,“ segir Kristín. Hún var tvítug þegar hún flutti alveg norður, nýútskrifuð úr Kennaraskólanum og hóf störf í Barnaskóla Akureyrar. „Fyrir hádegi var ég með 33 börn, og eftir hádegi var ég með 29 börn. Ég var alltaf eini kennarinn og ég man ekki eftir, á þeim átta árum sem ég kenndi þarna, neinum hegðunarvandamálum.“ Kristín segist muna eftir fyrirferðarmiklum einstaklingum, fáum samt, en þrátt fyrir það sá hún það ekki sem vandamál.
 

Kristín er hér tvítug með nemendur sína í Barnaskólanum. Myndin er tekin 1966, og tekin af Facebook síðu Kristínar.
„Einn nemandi minn, sem var verulega fyrirferðarmikill, er listamaður í dag,“ rifjar Kristín upp. „Ég hafði það frelsi, að geta leyft honum að teikna, og þá var hann ekki lengur fyrirferðarmikill. Þannig var það með fleiri, en ég þorði og mátti, fara ýmsar leiðir til þess að mæta börnunum þar sem þau voru stödd.“
 
Þannig kviknaði áhugi Kristínar á sérkennslufræðum, en í næsta hluta viðtalsins segir hún frá framhaldsnámi sínu, sem bar hana út fyrir landssteinana. Ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. 
 
  • Á MORGUN „Það sótti alltaf á mig að læra meira“