Fara í efni
Mannlíf

60 ára og eldri stunda pokavarp af kappi

Pokavarpið stundað af kappi í Íþróttahöllinni. Myndir af vef Akureyrarbæjar.

Í verkefninu Virk efri ár sem Akureyrarbæjar hefur veg og vanda af er íbúum sem náð hafa 60 ára aldri boðið tækifæri til að hreyfa sig, hitta fólk og skemmta sér. Ýmislegt hefur verið í boði og eitt af því sem sannarlega hefur slegið í gegn er svokallað pokavarp sem á ensku kallast „cornhole“, að því er segir á vef Akureyrarbæjar í dag. 

Þar segir ennfremur:

„Cornhole“ hefur verið spilað í Bandaríkjunum síðan seint á 19. öld í ýmis konar útgáfum. Árið 2005 voru svo stofnuð samtök þar í landi með það að leiðarljósi að staðla leikinn og bjóða upp á keppnismót. Skemmst er frá því að segja að leikurinn hefur náð gríðarlegum vinsældum vestan hafs.

Kristinn Hólm hefur smíðað þar til gerða pokavarpspalla sem notaðir eru í Íþróttahöllinni.

Ófært þótti að kalla leikinn „cornhole“ þegar hann er iðkaður hérlendis og því ákvað verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Akureyrarbæ að kalla þetta „pokavarp“ sem hefur mælst vel fyrir.

Nú hefur Kristinn Hólm smíðað þar til gerða pokavarpspalla sem áhugasamir hafa aðgang að og hann pantar einnig sérhannaða keppnispoka að utan. Kristinn mætir jafnan á æfingar og kennir nýliðum reglurnar sem eru ekki flóknar.

„Æfingar fara fram kl. 11.00 á mánudagsmorgnum í Íþróttahöllinni við Þórunnarstræti (2. hæð) og þar er leikgleðin sannarlega við völd. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að kíkja upp í höll og taka þátt í leiknum,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Hér má sjá á Youtube hvernig leikurinn er spilaður.