Fara í efni
Fréttir

Skammtímavistun fær glæsilegan bíl frá Hæng

Mynd: Þórhallur Jónsson
Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri hélt um helgina árlegt Hængsmót fyrir fatlaða í 41. skipti í Íþróttahöllinni. Í ár var keppt í boccia og mótið var auk þess Íslandsmót í greininni.
 
Við setningu mótsins á föstudagsmorguninn afhenti klúbburinn Skammtímavistun fatlaðra á Akureyri nýja bifreið sem leysir af hólmi eldri bifreið sem Lionshreyfingin gaf árið 2006. Nýi bíllinn er af gerðinni Mercedes Benz eVito og er rafknúinn með hjólastólalyftu. Verðmæti bílsins eru rúmar 15 milljónir króna. Það er von Lionsmanna að hún nýtist vel og auðgi líf þeirra sem njóta, segir í tilkynningu frá klúbbnum.
 
 
Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Akureyrar tók við bílnum fyrir hönd bæjarins. Mynd: Þorgeir Baldursson
„Lionsklúbburinn Hængur er félagsskapur um 40 karla sem stendur fyrir öflugu starfi. Klúbburinn fundar tvisvar í mánuði frá september og fram í maí ár hvert. Hængur er hluti af neti Lionsklúbba sem starfa í um 200 löndum um allan heim,“ segir í tilkynningunni.
 
Keppendur á Hængsmótinu í ár voru hátt í 200. Á laugardagskvöldið var haldið veglegt lokahóf þar sem borinn var fram veislumatur og góðir skemmtikraftar héldu uppi stuðinu fram eftir kvöldi. 
 

Akureyri.net fjallar nánar um Hængsmótið í vikunni

Félagar í Lionsklúbbnum Hæng. Mynd: Þórhallur Jónsson

Starfsmenn skammtímavistunarinnar Brekkukots í Þórunnarstræti 99, gamla húsmæðraskólanum. Anna Karen Birgisdóttir deildarstjóri í miðjunni og fagaðilarnir Hlynur Birgisson og Þórey Stefánsdóttir. Mynd: Þórhallur Jónsson

Mynd: Þorgeir Baldursson