Fara í efni
Fréttir

Léttir lónar á Pollinum – sjaldséð tegund hér

Sjaldséður léttir sýnir sig á Pollinum. Myndirnar með fréttinni eru frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Whale Watching Akureyri. Myndasmiðir eru Maquaide Charles Murfitt, dýrafræðingur frá Englandi, og Gisela Solà Boloix, sjávarlíffræðingur frá Spáni, en bæði starfa sem náttúrufræðingar (Naturalist) hjá Whale Watching Akureyri. Myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi fyrirtækisins. 

Höfrungur af tegundinni Delphinus Delphis (Short beaked common Dolphin), eða Léttir eins og þessi tegund nefnist á íslensku, hefur lónað á Pollinum undanfarna daga. Dýrið sást í hvalaskoðunarferð á vegum Whale Watching Akureyri á sunnudag og mánudag og birti fyrirtækið myndir af því á Facebook-síðu sinni.

Þessi höfrungategund er mjög sjaldséð hér við land, en dýrið hefur dvalið á Pollinum við Akureyri undanfarna daga. Það er þó ekki endilega góðs viti að stakur höfrungur af þessari tegund sé á ferð í Eyjafirðinum. Dýrið gæti verið í vanda statt, villt og í leit að æti. Léttir finnst mjög víða, en þessi dýr eru félagslynd og vilja helst halda sig í volgari sjó á hitabeltisslóðum og frá landi.


Mynd tekin í ágúst í fyrra, í fyrsta skipti sem léttir sést hér við land, svo vitað sé. 

Léttir er því mjög sjaldséður hér við land. „Við erum mjög spennt að sjá þessa tegund, en það er þó ekki endilega góðs viti að sjá einn stakan höfrung á svona óvenjulegu svæði. Við fylgjumst með stöðunni og látum ykkur vita! Höfrungurinn hefur verið hér í tvo daga, rétt utan Akureyrar,“ segir einnig í pistlinum.

Virðist í góðu ástandi

Í samtali við Akureyri.net vakti Ania Wójcik, sem starfað hefur hjá fyrirtækinu, verið í fjölbreytilegum verkefnum þar í sex ár og mætti titla sem náttúrusinna hjá Whale Watching Akureyri, athgyli á að óvenjulegt sé að sjá eitt dýr þessarar tegundar og geti dýrið verið í vanda statt, gæti hafa villst og verið áttavilt, veikt, í leit að æti eða hjálp, eða jafnvel gæti þetta verið merki um breytingar á sjávarhita í tengslum við hlýnun jarðar, mengun eða aðra þætti sem sjávarspendýr séu mjög viðkvæm fyrir.

Léttirinn sást skammt frá landi, eins og sést á myndinni frá því fyrr í vikunni þar sem olíutankarnir í Krossanesi eru í baksýn.

„Þetta er sérstaklega sjaldgæfur gestur á þessu svæði og þess vegna höfum við bent á að það sé ekki endilega góðs viti að hann virðist vera einn á ferð. Fyrir ekki svo löngu heyrði ég af einstaklingi sömu tegundar svo nærri landi við Svíþjóð. Stuttu síðar fannst dýrið strandað. Það jákvæða er þó að hingað til virðist dýrið ekki sýna nein merki um að það sé í vanda, virðist sýna góða virkni og vera í góðu ástandi, en þetta er engu að síður óvenjulegt,“ segir Ania jafnframt um þennan sjaldséða gest.

Léttir í fyrsta skipti hér við land í fyrra

Ania bendir á að hægt sé að fylgjast með öllum þeim hvalategundum sem sjást í ferðum á vegum fyrirtækisins á vefsíðu þess. Hingað til hafi aðeins orðið vart við einn einstakling þessarar tegundar, sem sé mjög óvenjulegt. „Fyrst varð vart við þessa tegund hér á firðinum þann 5. ágúst 2023. Líklega sáum við sama hóp 4. og 7. september, en ekki aftur síðan þá. Núna sáum við einn einstakling þessarar tegundar rétt utan við Akureyri sunnudaginn 21. og mánudaginn 22. apríl. Við sáum hann ekki í gær, en það hefur verið fylgst með honum í morgun.“


Mynd tekin í ágúst 2023.


Mynd tekin í ágúst 2023.


Mynd tekin í september 2023. Eins og sést var dýrið þá ekki eitt á ferð, eins og raunin virðist vera núna í vikunni.

Myndasmiðir eru Maquaide Charles Murfitt, dýrafræðingur frá Englandi, og Gisela Solà Boloix, sjávarlíffræðingur frá Spáni, en bæði starfa sem náttúrufræðingar (Naturalist) hjá Whale Watching Akureyri. Myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi fyrirtækisins.