Fara í efni
Fréttir

Hrygningarannsóknir og hljóðfælur á netum

Gylfi Gunnarsson skipstóri á Leifi EA 888 frá Grímsey hefur verið á netaralli fyrir Hafrannsóknastofnun undanfarið. Mynd: Þorgeir Baldursson

Smábátasjómenn og hobbíkarlar á Akureyri hafa að undanförnu furðað sig á því að bátur á vegum Hafrannsóknastofnunar hafi verið að veiðum á lokuðu hrygningarsvæði þorsks í Eyjafirði að undanförnu, á meðan þeir sjálfir virða veiðibann sem verið hefur í gildi.

Akureyri.net leitaði upplýsinga hjá stofnuninni. Þar á bæ fengust þær skýringar að hin árlega stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum hafi farið hér fram á dögunum. En það eru einnig forvitnilegar og áhugaverðar tilraunir í gangi samhliða þessum veiðum.

Akrílkúlur og hljóðfælur til að minnka meðafla

Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur á uppsjávarsviði stofnunarinnar, segir verkefnið sem er í gangi um þessar mundir í Eyjafirði nokkuð margþætt. „Aðalmarkmiðið er að prófa nýtt veiðarfæri, svokölluð kúlunet, sem eru hefðbundin þorskanet með litlum akrílkúlum sem dreift er um netin. Hugsunin á bakvið þau er að smáhveli „sjái“ netin með bergmáli og geti þannig forðast þau,“ segir Guðjón Már um verkefnið.

Jafnframt er verið að prófa hljóðfælur sem eiga að fæla smáhveli og önnur sjávarspendýr frá netunum. „Þessar tilraunir eru hluti af tveimur stórum Evrópuverkefnum þar sem markmiðið er að minnka meðafla sjávarspendýra og fugla í fiskveiðum, en fiskveiðar hafa víða mikil áhrif á þessa hópa.“

En rannsóknirnar snúast einnig um að afla meiri þekkingar á hrygningum hjá þorski. „Á sama tíma gerir þessi rannsókn okkur kleift að meta framgang hrygningar hjá þorski innfjarðar og þannig fá mat á hversu lengi hrygning stendur yfir á þessu svæði og yfir hvaða tímabil. Slíkar upplýsingar eru mjög verðmætar ef fyrirspurnir vakna um þessar svæðalokanir koma upp í framtíðinni,“ segir Guðjón Már Sigurðsson.

Niðurstöður sambærilegra rannsókna fyrri ára má finna á vef stofnunarinnar - sjá hér.