Fara í efni
Fréttir

Allur kraftur í faglegt starf með syrgjendum

Berglind Arnardóttir, Ína Lóa Sigurðardóttir og Guðfinna Hallgrímsdóttir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Samhygð, samtök um sorg og sorgarviðbrögð á Akureyri og nágrenni, hefur verið starfrækt frá árinu 1989. Samtökin hafa verið til staðar fyrir fólk sem gengur í gegn um ástvinamissi og boðið upp á stuðningshópa og fræðslu. Nú dregur til tíðinda hjá Samhygð, en samtökin sameinuðust Sorgarmiðstöð í fyrradag, þriðjudaginn 7. maí, með viðhöfn á Akureyri. Blaðamaður Akureyri.net hitti Guðfinnu Hallgrímsdóttur, stjórnarformann Samhygðar og Ínu Lóu Sigurðardóttur og Berglindi Arnardóttur frá Sorgarmiðstöð til þess að forvitnast um samrunann og þjónustu samtakanna. 

„Við höfum verið að fá þjónustu, fræðsluefni og stuðning frá Sorgarmiðstöð áður,“ segir Guðfinna. „En núna erum við að stíga skrefið til fulls, í rauninni að leggja niður Samhygð og sameinast Sorgarmiðstöð. Héðan í frá verður þá talað um Sorgarmiðstöð á Norðurlandi.“ 

Hugmyndin er að í framtíðinni verðum við með landsbyggðafulltrúa í hverjum landshluta. Við byrjum hérna fyrir norðan

Ína Lóa kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar á sínum tíma, en gegnir núna starfi framkvæmdastjóra. Ásamt fagstjóra, er Ína eini launaði starfsmaður samtakanna. „Upphaflega eru samtökin stofnuð vegna þess að það þurfti að gera betur fyrir syrgjendur. Við fundum það strax, að með samtakamætti náðum við lengra í því að vinna að málefnum syrgjenda,“ segir Ína Lóa. „Okkur dreymir um að sjá starfsemi félagsins á landsvísu, en við erum með þessu skrefi að færa okkur nær því markmiði. Hugmyndin er að í framtíðinni verðum við með landsbyggðafulltrúa í hverjum landshluta. Við byrjum hérna fyrir norðan.“ 

Frá afhendingu styrksins frá ráðuneytunum til handa Sorgarmiðstöð. Mynd: Sorgarmidstod.is 

Eins og er, er Sorgarmiðstöð rekin aðallega á styrkjum frá Ríkinu, nánar tiltekið þremur ráðuneytum; félagsmála-, heilbrigðis- og mennta- og barnamálaráðuneytin. „Það var bara núna í febrúar sem við fengum þennan styrk, sem var mjög kærkomið og mikil viðurkenning fyrir okkur,“ segir Berglind, sem er stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar. 

„Helsta breytingin fyrir okkur hérna fyrir norðan, er að nú þurfum við ekki að manna stjórn og eyða jafn mikilli orku í utanumhaldið,“ segir Guðfinna. „Nú flyst það til Sorgarmiðstöðvar og við getum þá nýtt krafta okkar fólks í faglegt starf með syrgjendum.“ Guðfinna segir að stuðningurinn sé þverfaglegur, en í starfinu eru prestar, hjúkrunarfræðingar, sálgæsluaðilar, félagsráðgjafar og fleiri. „Í dag ætlum við að bjóða upp á fræðsluerindi, helst tvisvar á misseri. Síðan erum við með sorgarhópa.“

Það eru sér hópar fyrir fólk sem hefur misst barn, aðrir fyrir foreldramissi, makamissi, sjálfsvígsmissi, svo dæmi séu nefnd

Sorgarhóparnir eru hryggjarstykkið í starfi Sorgarmiðstöðvar og Samhygð. Boðið er upp á nokkra hópa, en fólk er sett saman eftir því hvernig missi það hefur gengið í gegn um. „Það eru sér hópar fyrir fólk sem hefur misst barn, aðrir fyrir foreldramissi, makamissi, sjálfsvígsmissi, svo dæmi séu nefnd. Þetta hefur farið svolítið eftir eftirspurn, hóparnir verða til þegar það fæst fólk í þá. Núna er hægt að fara inn á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar og sækja um að taka þátt í sorgarhóp.“

Utan um hvern hóp heldur einn fagaðili og einn jafningi, sem gegnir þá hlutverki jafningjastuðnings. „Viðkomandi hefur þá gengið í gegn um sambærilegan missi og fólkið í hópnum,“ segir Ína Lóa. „Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel, það er gott að hafa aðila sem hefur reynslu og gefur von. Við gerum mat á öllu svona starfi, þar sem við höfum séð hvað hópastarfið er að virka vel fyrir langflesta. Þetta er í raun okkar grunnþjónusta.“

Berglind og Ína Lóa við afhendingu 'Heiðursbollans', sem er viðurkenning Sorgarmiðstöðvar fyrir sérstakt framlag í þágu syrgjenda á Íslandi. Í ár fór viðurkenningin til Jónu Dóru Karlsdóttur og Olgu Snorradóttur. Mynd: Sorgarmidstod.is


„Eins og gefur að skilja, fer þjónusta okkar svolítið eftir eftirspurn,“ segir Guðfinna. „Við förum ekki af stað með hóp fyrr en við erum með ákveðið marga. Fyrir sunnan er lágmarksfjöldi í hópum 8, en hérna fyrir norðan eru það 6. Það hefur reyndar verið auðvelt að fylla hópa. Því miður, ætti maður í raun að segja.“

Einnig er boðið upp á fræðsluerindi sem bera heitið 'Að missa ástvin'. „Að mæta þangað er frábær staður til þess að stíga sín fyrstu skref hjá Sorgarmiðstöð,“ segir Ína Lóa. „Þarna er ekki krafist neins af þér, þú kemur bara og hlustar. Sem betur fer eru margir að upplifa erfiða sorg í fyrsta skipti í lífinu, og það er svo margt sem getur komið á óvart í þessu ferli. Oft getur einfaldlega hjálpað að heyra að upplifun þín af sorginni er fullkomlega eðlileg.“ 

Enda erum við Sorgarmiðstöð Norðurlands, og viljum teygja okkur út fyrir Eyjafjörðinn, að sjálfsögðu. Til dæmis fór Sindri með þetta sama erindi líka til Húsavíkur

Á Akureyri var þetta fræðsluerindi haldið fyrr á þessu ári. Séra Sindri Geir Óskarsson, prestur í Glerárkirkju sá um að flytja erindið. „Þetta var mjög góð stund, en það mættu rúmlega 30 manns,“ segir Guðfinna. „Það spunnust mjög góðar umræður í kjölfarið og fólk var að staldra við eftir erindið og tengjast. Það sem var líka gaman að sjá, að það var ekki bara fólk frá Akureyri að mæta, heldur af stærra svæði í kring um okkur. Enda erum við Sorgarmiðstöð Norðurlands, og viljum teygja okkur út fyrir Eyjafjörðinn, að sjálfsögðu. Til dæmis fór Sindri með þetta sama erindi líka til Húsavíkur.“

„Það er verið að skoða stuðningshópa og fræðslu á netinu líka,“ segir Ína Lóa. „Fagstjórinn okkar fór til Osló nýlega til þess að læra af kollegum okkar á Norðurlöndunum. Það er meira að segja verið að skoða sýndarveruleika og allskonar spennandi. Við erum ekki byrjuð að bjóða upp á þjónustu okkar á netinu, en undirbúningurinn er hafinn.“

Ína segir að það hafi hentað svo vel að byrja fyrir norðan, þar sem Samhygð hefur boðið upp á stöðugt og gott starf

Sorgarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu hefur aðstöðu í Hafnarfirði. „Við erum byrjuð að bjóða upp á ráðgjafaþjónustu þar, þar sem er í boði að fá einstaklingsviðtöl,“ segir Ína Lóa. „Draumurinn er að bjóða upp á þjónustuna okkar líka fyrir austan og vestan, vera með þá samstarf við fagaðila á þessum svæðum sem myndu vera með námskeið og hópa. Til að byrja með erum við ofboðslega spennt fyrir því að stíga fyrsta skrefið hérna fyrir norðan.“ Ína segir að það hafi hentað svo vel að byrja hér, þar sem Samhygð hefur boðið upp á stöðugt og gott starf sem er að mörgu leyti eins og starf Sorgarmiðstöðvar.

„Við erum búnar að hafa kynningu fyrir fagaðila á svæðinu sem vinna oft á tíðum með fólki sem hefur orðið fyrir missi,“ segir Guðfinna. „Tilgangurinn var að vekja athygli á okkar starfi, til þess að þessir aðilar geti þá bent á Sorgarmiðstöð sem mögulegt úrræði fyrir skjólstæðinga sína. Við óskum eftir að vera í sterku samstarfi við prestana, heilsugæslustöðvarnar, sjúkrahúsið, sálfræðingana og félagsráðgjafana, Aflið, Bjarmahlíð, Kvennaathvarfið og fleiri.“

'Hjálp 48' er þjónusta sem grípur fólk. Þau sem missa skyndilega, af slysförum eða vegna sjálfsvígs til dæmis, upplifa að það sé í raun ekkert sem grípur

Á döfinni er nýtt verkefni hjá Sorgarmiðstöð, sem vert er að fjalla um. Akureyri.net mun gera því verkefni betri skil þegar það hefst í haust. „Við erum að keyra af stað verkefni sem heitir 'Hjálp 48',“ segir Ína Lóa. „Þetta er þjónusta sem grípur fólk. Þau sem missa skyndilega, af slysförum eða vegna sjálfsvígs til dæmis, upplifa að það sé í raun ekkert sem grípur. Stór hluti þeirra sem leita til okkar eru í þessum hópi.“ Sorgarmistöð fékk nýverið styrk til þess að þróa þessa þjónustu, en í stuttu máli felur hún í sér að einhver frá Sorgarmiðstöð heimsækir aðstandendur innan 48 klukkustunda frá skyndilegu fráfalli ástvinar. „Við verðum með þjónustuna í samvinnu við Píeta, heilsugæslurnar, presta og alla sem koma að svona aðstæðum.“

Hjálp 48 verður sett í gang í haust, og það byrjar á Akureyri. „Við ætlum að byrja hérna að bjóða upp á þessa þjónustu,“ segir Ína Lóa. „Til að byrja með, verður þjónustan til handa fólki sem missir ástvin sem fellur fyrir eigin hendi.“ Guðfinna missti dóttur sína unga fyrir 10 árum, en hún framdi sjálfsvíg. „Mér finnst þetta verkefni ofboðslega spennandi,“ segir hún. „Við höfum verið rosalega hugsi síðan dóttir mín lést, vegna þess að þá var eins og það vantaði eitthvað til þess að grípa okkur og hjálpa. Það, að einhver komi innan 48 tíma og hitti aðstandendur sem óska eftir því, er svo stórkostlegt skref. Að finna að það er einhver sem heldur utan um þig og getur aðstoðað þig í næstu skrefum. Bæði varðandi sálrænan stuðning og allt þetta praktíska.“

    • Áhugasöm um starfsemi Sorgarmiðstöðvar er bent á að skoða heimasíðu samtakanna. Þar er töluvert af fræðslu, sem fólk getur nýtt sér. HÉRNA er hægt að sjá sorgarhópana sem eru í boði og sækja um að taka þátt.