Fara í efni
Fréttir

AA-samtökin á Akureyri í húsnæðisvanda

Strandgata 21, þar sem AA-samtökin hafa haft húsnæði til afnota, er í eigu Akureyrarbæjar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

AA-samtökin á Akureyri eru í húsnæðisvanda því það húsnæði sem samtökin hafa haft til afnota að Strandgötu 21, sem er í eigu Akureyrarbæjar, er ónýtt og þarfnast gagngerra endurbóta. Velferðarráð Akureyrarbæjar fjallaði um húsnæðisvanda samtakanna í febrúar og nú hafa Akureyrarbær og þjónustunefnd AA-hússins í sameiningu auglýst eftir sal til leigu. Leitað er eftir fundarsal sem rúmar allt að 50 manns og er með lítilli eldhúsaðstöðu og salernum.

AA-samtökin hafa haft aðstöðu í Strandgötunni um árabil, en húsið var byggt 1897 og orðin mikil þörf á endurbótum á því þar sem endurnýja þarf þakið, skipta um glugga og koma í veg fyrir rakaskemmdir. „Enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi starfs AA-samtakanna fyrir samfélagið okkar og samtökin verða í húsinu þar til önnur lausn finnst á húsnæðismálum þeirra. Ástand hússins er hins vegar orðið afar slæmt og því leitar þjónustunefnd AA-hússins nú að nýju framtíðarhúsnæði til leigu með stuðningi Akureyrarbæjar. Veist þú um húsnæði sem gæti hentað?“ segir meðal annars í auglýsingunni sem birt hefur verið á Facebook-síðu bæjarins

Húsnæðið í Strandgötunni er þó ekki það eina sem samtökin hafa nýtt til fundahalda. Samkvæmt fundalista samtakanna fyrir Akureyri er aðstaða í Hvítasunnukirkjunni og Glerárkirkju einnig nýtt til fundahalda sem og í Hofsbót 4. 
 
Hér að neðan má sjá auglýsingu samtakanna og Akureyrarbæjar.