Fara í efni
Umræðan

Tungumálið er vegabréf inn í samfélagið

Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Akureyri, og Róbert Theodórsson verkefnastjóri málefna flóttafólks. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sjálfboðaliðar Rauða krossins inna af hendi mikilvægt starf í samfélagi mannanna víða um heim, eins og alkunna er. Okkar fólk á Akureyri sinnir fjölbreyttum verkefnum, meðal annars málefnum innflytjenda og flóttafólks og sú starfsemi er nokkuð umfangsmikil. Sjálfboðaliðar Eyjafjarðardeildar Rauða krossins eru yfir 300 talsins.

„Margir eru boðnir og búnir að veita aðstoð í þessum gefandi verkefnum,“ segir Róbert Theodórsson, verkefnastjóri málefna flóttafólks hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð, í samtali við Akureyri.net. Engu að síður er þörf á fleiri sjálfboðaliðum og fyrir dyrum stendur einmitt nýliðanámskeið sem fram fer mánudaginn 4. desember.

Verkefni sjálfboðaliða felast meðal annars í því að gefa fólki færi á að æfa sig í tungumálinu – íslenskunni.

„Tungumálið er vegabréf inn í samfélagið, eða hvað?“ spyr Akureyri.net og bæði svara samstundis játandi, Róbert og Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð. „Það er nákvæmlega þannig,“ segir hún.

„Við erum með flottan hóp af sjálfboðaliðum sem sinna mjög fjölbreyttum verkefnum. Okkar upplifun er að Norðlendingar taka vel á móti fólki og nú vantar okkur fleiri sjálfboðaliða til að leiða nýkomið fólk inn í samfélagið. Ég get lofað því að það er mjög gefandi.“

Þau taka fram að Rauði krossinn sjái ekki um íslenskukennslu. Flóttafólk á rétt á fjórum stigum í íslenskunámi, Vinnumálastofnun ber ábyrgð á því og greiðir en kennslan fer fram í símenntunarmiðstöðvum. „Hér á Akureyri er kennslan í Símey en verkefni okkar sjálfboðaliða er svo að styðja við þetta tungumálanám með því til dæmis að gefa fólki tækifæri til að æfa sig.“

Þau segja mikilvægt að gefa fólki sem hingað kemur erlendis frá tækifæri til að spreyta sig sem oftast í íslensku.

„Mörgum Íslendingum finnst óþægilegt að tala ensku við fólk, til dæmis í þjónustustörfum. Ekki er heldur hægt að gera kröfu til þess að Íslendingar tali ensku og Íslendingum sem ekki geta það á ekki að líða illa vegna þess,“ segir Róbert og Sóley bætir við: „Þess vegna er alltaf gott að hefja samtal á íslensku þótt fólk haldi að viðmælandinn sé útlendingur. Það er mikilvægt að gefa fólki séns og langflestir vilja það. Fólkið er þakklátt ef Íslendingar nenna að reyna að tala við það á íslensku. Við eigum öll að hjálpast að við það og ekki vera feimin við að tala íslensku” segir Sóley.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér

Áhugasamir geta líka hringt í Rauða krossinn við Eyjafjörð til að forvitnast um verkefnin. Róbert og Sóley fullyrða að allir sem sitji námskeið fái góða innsýn í verkefnin en leggja áherslu á að því fylgi engin skuldbinding að koma á námskeið.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00