Fara í efni
Umræðan

Teikningar af Gamla skóla hafa varðveist

Teikning: Sigtryggur Jónsson 1904

GAMLI SKÓLI – 2

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Byggingarteikningar af gamla skólahúsi Menntaskólans á Akureyri eftir Sigtrygg Jónsson, timburmeistara frá Espihóli í Eyjafirði, hafa varðveist, bæði grunnteikningar og útlitsteikningar. Þar á meðal er þessi uppdráttur af framhlið hússins, façadeteikning, sem svo var nefnd á dönsku. Sigtryggur Jónsson áritar uppdráttinn í Reykjavík 26. apríl 1904. Þremur dögum síðar samþykkir Jón Magnússon, skrifstofustjóri í stjórnarráði Íslands, teikningarnar fyrir hönd ráðherra eftir umboði. Þann dag undirrituðu Hannes Hafstein Íslandsráðherra, Jón Magnússon og Sigtryggur Jónsson „samning um bygging skólahúss á Akureyri“. Samningurinn er varðveittur í heild. Í honum er lýsing á frágangi hússins, bæði úti og inni. Í annarri grein samningsins segir:

Í skuldbindingu þessari er fólgið, að leggja til allt verk, sem að húsagjörðinni lýtur, bæði að steinsmíði, trjesmíði, járnsmíði og málun, og hverju því öðru, sem vinna þarf til að fullgjöra grundvöllinn undir húsinu og húsið sjálft, svo að þegar megi taka það til notkunar í fullkomlegu íbúðarfæru ástandi, undir eins og það er selt í hendur eigandanum eptir því er nánar verður fram tekið í 6. gr. samnings þessa, og skal allt verkið vera vel og vandlega af hendi leyst. Sömuleiðis er í skuldbindingunni fólgið að leggja til og flytja að allt efni í húsið, af hverri tegund sem er, og skal það allt gott og gallalaust, þar með taldir ofnar í herbergin og eldavjelar samkvæmt uppdrættinum, þakrennur og niðurfallsrennur úr galvanísjeruðu járni ekki þynnri en Nº22 eða úr steyptu járni, gluggagler, lásar og lamir á hurðir og glugga. Viðurinn ekki Mandalsviður. 

Sama dag og samningurinn var undirritaður sigldi gufuskipið Laura frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Líkur benda til að Sigtryggur Jónsson hafi farið með skipinu til að ganga frá kaupum á smíðaviði frá Noregi. Sigtryggur kom aftur til Akureyrar með gufuskipinu Vestu 21. júní 1904 og hinn 15. júlí 1904 kom seglskip til Akureyrar með viðina í húsið. Mælt hafði verið fyrir lóð og húsi hinn 11. maí og hófst þá þegar jarð- og grjótvinna. Frá því er sagt í blaðinu Gjallarhorni 10. júní 1904 að 4. júní hafi Jón A. Hjaltalín skólameistari lagt hornstein að húsinu „í viðurvist amtsráðs norðuramtsins og margra bæjarbúa.“

Teikningum Sigtryggs Jónssonar svipar til teikninga sem Snorri Jónsson, timburmeistari frá Hólárkoti í Svarfaðardal, sendi með tilboði í byggingu skólahúss á Akureyri 16. mars 1904 og Stefán Stefánsson, síðar skólameistari, lýsir í blaðinu Norðurlandi 2. apríl 1904. Líkur benda til að Stefán Stefánsson hafi sagt fyrir um skipulag þess húss. Skólahúsið var hins vegar byggt eftir teikningum Sigtryggs Jónssonar sem stóð fyrir smíðinni í samræmi við verksamning og teikningar og réð til verksins fjölda iðnaðarmanna og verkamanna. Sigtryggur Jónsson er því bæði byggingarmeistari hússins og höfundur þess – forsmiður, eins og kallað var.

  • Þetta er kaflinn Forsmiður hússins úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00