Fara í efni
Fréttir

VMA: 86 nemendur brautskráðir

Brautskráning frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í Hofi í dag. Ljósmyndir: Hilmar Friðjónsson.

Í dag, laugardag, voru 86 nemendur brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Hofi. Af þeim voru 15 iðnmeistarar, 12 rafeindavirkjar og 10 af sjúkraliðabraut svo fjölmennustu hóparnir séu nefndir.

Í orðum sínum til brautskráningarnema hvatti Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari, þá til þess að vera stolta af árangri sínum og horfa björtum augum til framtíðarinnar.

„Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni.“

Sigríður Huld kvaðst vonast til að nemendur eigi góðar minningar frá tímanum í VMA. „Þótt Covid hafi markað skólagöngu ykkar síðustu annir þá vona ég að þið hafið náð því, sem sagt er um þessi svokölluðu framhaldsskólaár, að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt – þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“

Ítarleg umfjöllun um brautskráninguna í máli og myndum er á heimasíðu VMA. Smellið hér til að fara þangað.