Sumarkjóla- og freyðivínshlaup í Kjarna
Mynd: Unsplash/Alex Grodkiewicz
Sumarkjóla- og freyðivínshlaup verður haldið í Kjarnaskógi kl. 17 á morgun, miðvikudag. Það er Maríanna Margeirsdóttir sem er skipuleggjandi viðburðarins en henni hefur lengi dreymt um að halda búbbluhlaup á Akureyri.
Mæta með freyðivín í skóginn
„Þetta hlaup er búið að vera í nokkur ár fyrir sunnan, en mig hefur lengi langað til að svona viðburður yrði haldinn á Akureyri. Í fyrra þá héldum við systir mín, Vala Hrönn og hennar hlaupahópur, 550 rammvilltar, svona hlaup á Sauðárkróki sem tókst vel,“ segir Maríanna. Hún segir að allir geti tekið þátt í hlaupinu, það sé engin tímataka og þátttakendur hlaupi eða gangi á sínum hraða. Einu skilyrðin fyrir þátttöku er að viðkomandi sé orðinn 20 ára, mæti í sumarkjól eða sumarfötum og hafi meðferðis eina ískalda flösku af freyðivíni, áfengu eða óáfengu.
Góð upphitun fyrir versló
Mæting er á bílaplanið við Kjarnakot kl. 17 og þar verður byrjað á upphitun. Svo fara allir þátttakendur 2,2 km hring í skóginum á sínum hraða. „Freyðivínið verður sett í púkk og það er ein drykkjarstöð á leiðinni þar sem allir fá eitt glas af freyðivíni. Þeir sem vilja hlaupa fleiri hringi fá auðvitað fleiri glös. Við hittumst svo á túninu við Kjarnakot að hlaupi loknu og klárum úr flöskunum,“ segir Maríanna sem segir að þetta sé eingöngu til gamans gert . „Ég veit ekkert hvað búast má við mörgum, margir hafa sýnt viðburðinum áhuga á Facebook, en svo er bara að sjá hvað gerist,“ segir Maríanna og bætir við að viðburðurinn sé kjörinn til að hita upp fyrir verslunarmannahelgina og viðra sumarkjólinn/fötin.
Þessi mynd er tekin á Sauðárkróki þegar sumarkjóla- og búbbluhlaup var haldið þar í fyrra. Mynd: Maríanna Margeirsdóttir.