Fara í efni
Fréttir

Viðurkenning vegna Norðurstrandarleiðar

Á Bessastöðum í gær. Frá vinstri: Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá MN, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN, Katrín Harðardóttir, verkefnastjóri Norðurstrandarleiðar hjá MN og Eliza Reid, forsetafrú. Ljósmynd: Samtök ferðaþjónustunnar.

Markaðsstofa Norðurlands (MN) var tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar í ár, en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær. Tilnefninguna hlaut MN vegna Norðurstrandarleiðar – Arctic Coast Way, sem opnaði við hátíðlega athöfn árið 2019 og hefur orðið að stórum segli í ferðaþjónustu á Norðurlandi, eins og það er orðið í tilkynningu frá MN.

Sýningin Icelandic Lava Show hlaut Nýsköpunarverðlaunin í ár, en auk sýningarinnar og Norðurstrandarleiðar var VÖK Baths á Egilsstöðum tilnefnt. Samtök ferðaþjónustunnar veita verðlaunin árlega, fyrir athyglisverðar nýjungar. Markmiðið er að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar og frumkvöðla til dáða í ferðaþjónustu. Alls bárust fjórtán tilnefningar til samtakanna en sem fyrr segir voru þessi þrjú fyrirtæki efst á lista dómnefndar, og fengu MN og Vök sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu.

Í tilkynningu frá SAF segir: „Tilnefningarnar til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar endurspegla mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár sé Icelandic Lava Show.“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Katrín Harðardóttir, verkefnastjóri Norðurstrandarleiðar og Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá MN, tóku við viðurkenningu vegna tilnefningarinnar á Bessastöðum í gær.

„Það gleður okkur mikið að fá slíka tilnefningu og sýnir þann kraft sem einkennir norðlenska ferðaþjónustu. Verkefnið er sprottið úr nýsköpun ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og sýnir vel þann sameiginlega slagkraft sem í henni býr. Því var það okkur mikill heiður að taka við viðurkenningunni fyrir hönd okkar samstarfsfyrirtækja,“ segir Arnheiður.

Nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi

Umsögn dómnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar um Norðurstrandaleið var sem hér segir:

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way, var opnuð sumarið 2019, en um er að ræða áhugavert markaðsverkefni í ferðaþjónustu sem leitt hefur verið af Markaðsstofu Norðurlands. Óhætt er að segja að Arctic Coast Way hafi skapað nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi og kynnt landshlutann sem einstakan áfangastað. Ferðavefurinn Lonley Planet valdi t.d. Arctic Coast Way einn af 10 áhugaverðustu áfangastöðunum í Evrópu árið 2019.

Um er að ræða um 900 km leið meðfram Norðurströndinni, frá Hvammstanga við Húnaflóa í vestri til Bakkafjarðar í austri, en vegurinn liggur út frá hringveginum í gegnum 18 sveitarfélög og 21 þorp eða bæi.

Verkefnið er byggt á fyrirmyndum um ferðamannavegi sem þekktir eru víða erlendis og er ætlað að vekja athygli ferðamanna á áhugaverðum stöðum á leiðinni sem oft falla utan helstu ferðamannastaða. Auk þess eru tengingar með bát á þrjár eyjar – Drangey, Hrísey og Grímsey.

Um nokkuð stórt svæði er að ræða, en því er skipt upp í þrjú þemu. Á Norðvesturlandi er áherslan lögð á söguna og sögusagnirnar. Í Eyjafirði og hluta Tröllaskaga er áhersla á sjávarþorpin og hefðirnar sem eru tengdar þeim. Þá verður áhersla á náttúruöflin á Norðausturlandi.

Búið að GPS-merkja alla staði á leiðinni ásamt því að koma upp vegmerkingum. Til þess að taka þátt í verkefninu þurfa ferðaþjónustuaðilar, sveitarfélög og þorpin á leiðinni að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta átt viðskipti undir skrásetta vörumerkinu Arctic Coast Way.

Með því að fara um Norðurstrandaleiðina gefast ótal tækifæri til að komast út fyrir rammann og finna frelsið. Leiðin snýst ekki einvörðungu um akstur; hún býður ferðamanninn velkominn með sögum og upplifunum í hverri beygju og á hverri hæð. Norðurstrandarleið, með sína 900 kílómetra sem bíða skoðunar og könnunar, er síkvik og breytileg. En svona ferðalag lýtur ekki mælistiku fjarlægðar, heldur birtist í óvæntum augnablikum sem verða til þess að gestirnir vilja helst koma aftur og aftur.