Fara í efni
Pistlar

Veiði og vatnslitir

VEIÐI –

Stangveiði getur tekið á sig ýmsar myndir. Vinirnir Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Ragnar Hólm Ragnarsson vilja hvorki gleyma veiðidótinu né vatnslitunum heima þegar þeir leggja land undir fót. „Oft er yfirlýstur tilgangur ferðarinnar að veiða silunga en stundum er fiskurinn tregur og þá er gott að geta gripið í vatnslitina, sérstaklega í góðu veðri,“ segir Ragnar Hólm í viðtali við Akureyri.net. Þeir hafa farið víða saman til að veiða og mála síðasta áratuginn eða svo en mest eru ferðirnar þó bundnar við Eyjafjarðarsvæðið og sjóbleikjuna.

„Við förum þó í Jónskvísl og Sýrlæk núna í haust að leita að sjóbirtingi og það er spennandi. Þetta eru litlar ár í Landbroti í Meðallandi þar sem útsýn til jökla er stórfengleg. Mér kæmi ekki á óvart ef við kæmum heim með nokkrar góðar akvarellur og engan fisk eftir þá ferð, en vonandi fáum við þó eitthvað,“ segir Ragnar Hólm.

Lítur á akvarellurnar sem afla

Þeir félagar segja að vatnslitir og fluguveiði eigi margt sameiginlegt og þetta tvennt fari í það minnsta mjög vel saman. „Hvorugt væri hægt að stunda án vatns. Fiskurinn lifir í vatninu og við málum úr vatninu. Maður þarf líka að kunna að lesa vatn til að veiða vel og maður þarf að geta lesið landslag til að ná að fanga þokkalega mynd. Þannig er þetta tiltölulega djúpstæð náttúruupplifun í báðum tilvikum, mikil útivera og maður þarf að vera í nánum tengslum við umhverfið. Það má líka líta á myndirnar sem lukkast vel eins og góðan afla. Bestu túrarnir eru þegar maður kemur heim þreyttur og dasaður með 2-3 silunga og álíka margar þokkalega góðar akvarellur. Þá er maður alsæll.“

Talsvert bókað í sumar

Ragnar er búinn að fara eina ferð í vor í Reykjadalsá og fékk þokkalega veiði en gleymdi vatnslitunum viljandi heima til að geta einbeitt sér að urriðunum. „Já, það var gaman og fiskarnir voru annaðhvort dökkir og horaðir hrygningarfiskar sem við slepptum eða feitir og pattaralegir geldfiskar sem fóru á pönnuna.

Ég er búinn að bóka furðulega marga daga fyrir sumarið en skýringin er auðvitað einfaldlega sú að ég nenni ekki til útlanda eins og ástandið er vegna heimsfaraldursins. Ég á bókaða daga í Hlíðarvatni í Selvogi sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Eins fer ég í Norðfjarðará, Fjarðará á Borgarfirði eystra, Laxá í Mývatnssveit, upp á hálendið í svokölluð Framvötn, Mýrarkvísl og alls konar. Þótt það sé dásamlegt að ferðast einn um Spán þá er fátt sem jafnast á við ferðalög um Ísland með veiðistöng og vatnsliti,“ segir Ragnar Hólm.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Málað með Guðmundi Ármann í fjörunni við Dalvík.

Vatnslitamynd eftir Ragnar af félögunum Guðmundi Ármann og Valdemar Friðgeirssyni í Deildará á Melrakkasléttu.

Ragnar Hólm með fallegar sjóbleikjur á Austfjörðum.

Ragnar að mála við Lónsá á Langanesi.

Vatnslitað við Lónshyl í Ólafsfjarðará.

Dyrfjöll í þungskýjuðu. Málað við Fjarðará á Borgarfirði eystra.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00