Fara í efni
Pistlar

Sonur minn

Ég á nítján ára son sem heitir Haraldur Bolli oftast kallaður Halli Bolli. Ég á líka annan son sem heitir Jónatan Hugi og er þrettán ára, stundum kallaður Ljónshjarta af mömmu sinni, en þessi pistill er ekki um hann, Jónatan á eftir að fá sinn pistil síðar en stundum hef ég útskýrt fyrir sonum mínum að þó ég hæli öðrum þeirra þýði það ekki að ég sé ekki jafn stolt af þeim báðum. Ég er reyndar svo montin af þeim báðum að ég þarf frekar að stramma mig af til að koma þeim ekki í vandræðalegar aðstæður, en það er önnur saga.

Af mörgum ástæðum er ég montin af Halla Bolla mínum en þessi pistill fjallar hins vegar um það hvað mér finnst magnað og merkilegt að hann hafi af eigin frumkvæði sótt um og fengið starf við umönnun aldraðra og sjúkra á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Og nei það er ekki bara af því að hann er strákur sem ég er montin en jú vissulega líka vegna þess að hann er strákur. Auðvitað er sonur minn bara partur af okkar samfélagi sem kvengert hefur umönnunarstörf og sem nítján ára strákur ber hann að sjálfsögðu ekki ábyrgð á því en getur vonandi haft góð áhrif sem slíkur. Ég er mjög stolt af því að heyra hann segja að hann hlakki til á hverjum morgni að fara til vinnu, stolt af honum þegar hann kemur heim og segir að vinnudagurinn hafi verið frábær, meyr þegar hann mætir mér sorgmæddur vegna þess að vinnudagurinn var andlega krefjandi. Mér finnst hann svo mikil manneskja og vitur að þykja sjálfsagt og eðlilegt að aðstoða aldraða, hruma og sjúka við daglega umhirðu og veita hlýjan félagsskap og spjall eða áheyrn og nærgætni þegar dauðinn vitjar íbúa. Á sama tíma og ég dáist að syni mínum og finnst hann hafa tekið út dýrmætan þroska með að sækjast eftir starfi sem þessu velti ég því fyrir mér hvort ég hefði skrifað þennan pistil ef um dóttur væri að ræða. Eflaust væri ég jafn stolt en kannski ekki nógu uppveðruð til að skrifa um það.

Þegar við tökumst á við alheimsvanda í samskiptum kynjanna sem endurspeglast meðal annars í uppgjöri Metoo byltingarinnar skiptir miklu að skoða vel stóra samhengið til að gera raunverulegar breytingar og umpóla gildum sem hafa ruglast eða öllu heldur hafa alltaf verið rugluð, eins og að það sé bara kvenna að hlúa að sjúkum og græða sár en karla að byggja upp veldi og græða peninga. Virðingin sem þarf að ríkja í umhverfi okkar, virðingin sem þarf að lifa í loftinu sem við öndum að okkur og frá jarðveginum sem við fetum er virðingin sem ríkir í grundvallaratriðum mannlegrar farsældar og velsældar, eins og til dæmis í því að það sé jafn sjálfsagt að ungir karlmenn hjálpi öldruðum í bað og föt á hjúkrunarheimili eins og ungar konur. Að það sé jafn sjálfsagt að ungir karlar sinni börnum á leikskóla eins og ungar konur og að þessi störf séu álitin framtíðarstörf beggja kynja. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um launajafnrétti heldur sameiginleg gildi kynjanna og grundvallar virðingu fyrir daglegum störfum og hlutverkum í samfélagi okkar sem reynist forvörn gegn valdatöku í samskiptum sem endar í markaleysi og ofbeldi.

Móðir mín sem er 85 ára og þiggur aðstoð heimahjúkrunar dag hvern varð felmtri slegin á dögunum þegar ungur skeggjaður karlmaður birtist heima hjá henni til að aðstoða við morgunrútínuna en sá reyndist eftir „yfirheyrslu“ gömlu konunnar vera velviljaður sumarstarfsmaður heimahjúkrunar en ekki innbrotsþjófur eða misindismaður. Móðir mín er af þeirri kynslóð sem hreinlega trúir ekki að karlmenn vilji eða geti unnið störf sem þessi af því að hún hefur aldrei séð það gerast, ég meina, ekki mátti pabbi vera viðstaddur fæðingu okkar systkinanna, það bara tíðkaðist ekki þá. Þegar sú gamla hafði náð aftur áttum og anda og þau skeggjaði maðurinn gert út um misskilninginn hringdi hún í mig til að fara yfir æsilega atburðarrás morgunsins en hló jafnframt hjartanlega að sinni eigin þröngsýni enda húmoristi mikill og lætur aldrei góða sögu líða fyrir eigin spéhræðslu. Hennar ósjálfráðu viðbrögð voru að gera ráð fyrir einhverju misjöfnu í stað þess að hugsa að þar færi nú bara starfsmaður heimahjúkrunar árið 2021. Þetta er sannarlega partur af stóru myndinni sem við sem samfélag þurfum að púsla saman upp á nýtt til að skapa heilbrigði og sanngirni. Við breytum valdaójafnvægi meðal annars með því að breyta áherslum þannig að dag einn verði mæður eins og ég ekki jafn vandræðalega uppveðraðar af því að synir þeirra velji að starfa á elliheimili og gamlar konur ekki hræddar við skeggjaða heimahjúkrun. Já þetta skiptir máli fyrir samskipti kynjanna og farsæld okkar allra.

Hildur Eir Bolladóttur er prestur í Akureyrarkirkju.

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00