Fara í efni
Fréttir

Sóley náði að safna fyrir hjóli Bergsteins

Sóley Kjerúlf Svansdóttir er alsæl með árangurinn í áheitasöfnuninni. Myndir: Þorgeir Baldursson

„Söfnunin gekk vonum framar, búið er að safna fyrir hjólinu og við erum afar meyr og þakklát fyrir stuðninginn og viðbrögðin sem við höfum fengið,“ sagði Sóley Kjerúlf Svansdóttir við Akureyri.net í kvöld.

Eins og fram kom hér í gær lagði Sóley af stað í óvenjulegan hjóltúr frá Hrafnagilsskóla klukkan fimm síðdegis í því skyni að safna fé til að hlaupa undir bagga með foreldrum sex ára einhverfs drengs. Þau ætla að kaupa handa honum sérsmíðað þríhjól sem kostar um 550.000 krónur, Sóley hugðist safna hluta þeirrar upphæðar en gerði gott betur því búið er að safna fyrir hjólinu, sem fyrr segir.

Sóley stefndi að því að hjóla minni Eyjafjarðarhringinn í sólarhring og reiknaði með að fara 13 hringi. Hún sagði í kvöld að allt hefði gengið betur en hún þorði að vona og tíminn liðið merkilega hratt. „Nóttin var blaut og köld en ég var alltaf með einhvern með mér. Fólk hafði vaktaskipti og það var alveg æðislegt.“

Sóley segir að fyrir utan einn erfiðan hring hafi henni liðið vel allan tímann. „Ég var líka með gott fólk í kringum mig sem kom reglulega með nýtt kaffi, heita kjötsúpu og annað.“

Hún hjólaði lengra en upphaflega var gert ráð fyrir, alls 18 hringi eða 482 kílómetra. Fjöldi fólks hjólaði með henni, frá einum og upp í fimm hringi, og þegar allt er lagt saman hjólaði mannskapurinn samtals 2.285 kílómetra frá því klukkan 17.00 í gær til kl. 17.00 í dag.

Sóley og Bergsteinn áður en hún hjólaði af stað í gær.