Rut og KA/Þór meðal þeirra bestu
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, einn Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handknattleik, er á lista yfir 10 efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins að þessu sinni. Þá er lið KA/Þórs eitt þriggja efstu liða í kjöri liðs ársins.
Kjörið fer nú fram í 66. skipti en samtökin hafa kosið íþróttamann ársins samfleytt frá árinu 1956. Í morgun var tilkynnt um þá efstu í kjörinu en úrslitin verða kunngjörð 29. desember.
Þau tíu sem höfnuðu í efstu sætunum í kjörinu eru í stafrófsröð:
Aron Pálmarsson handknattleiksmaður hjá Aalborg í Danmörku varð Evrópumeistari með Barcelona og fór tvisvar í úrslit Meistaradeildar með liðinu á tímabilinu. Hann varð jafnframt spænskur meistari og bikarmeistari með liðinu og var fyrirliði landsliðsins þegar það tryggði sér sæti á EM 2022.
Bjarki Már Elísson handknattleiksmaður hjá Lemgo í Þýskalandi. Hann varð þriðji markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar 2020-21 og þýskur bikarmeistari með Lemgo. Hann var í lykilhlutverki með landsliðinu á HM í Egyptalandi og markahæsti leikmaður þess.
Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingamaður úr Ármanni. Hann varð heimsmeistari í réttstöðulyftu í þungavigt en gerði ógilt í hinum greinunum á HM og komst því ekki á blað í samanlagðri keppni á mótinu.
Kári Árnason knattspyrnumaður úr Víkingi í Reykjavík. Hann var burðarás í Víkingsliðinu sem varð Íslandsmeistari og bikarmeistari og þá lauk hann farsælum ferli með íslenska landsliðinu með sínum 90. landsleik í september.
Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona úr Stjörnunni. Hún var í lykilhlutverki í kvennalandsliðinu sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum. Kolbrún var valin í úrvalslið mótsins og framkvæmdi eitt erfiðasta stökk mótsins. Hún varð Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni.
Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona úr ÍA varð Evrópumeistari í -84 kg flokki í klassískum kraftlyftingum, setti þrjú Evrópumet á mótinu og varð fyrst Íslendinga Evrópumeistari í samanlögðu. Hún fékk bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu.
Martin Hermannsson körfuknattleiksmaður hjá Valencia á Spáni. Hann komst í undanúrslitin um spænska meistaratitilinn með liðinu og lék með því í Euroleague, næststerkustu deild félagsliða í heimi. Hann var í stóru hlutverki í mikilvægum sigri landsliðsins á Hollendingum.
Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Hann varð markakóngur þýsku deildarinnar 2021 og er áfram meðal markahæstu manna deildarinnar í ósigrandi liði Magdeburg í vetur, ásamt því að eiga næstflestar stoðsendingar. Hann vann Evrópudeildina með liðinu og síðan heimsmeistaramót félagsliða þar sem Magdeburg vann Barcelona í úrslitaleik.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir handknattleikskona hjá KA/Þór á Akureyri. Hún sneri heim eftir atvinnumennsku og fór fyrir liði KA/Þórs sem vann fjóra titla og varð Íslands- og bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni. Hún er fyrirliði landsliðsins sem fór vel af stað í undankeppni EM.
Sveindís Jane Jónsdóttir knattspyrnukona hjá Kristianstad í Svíþjóð. Hún er í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu og skoraði þrjú mörk í undankeppni HM í haust. Hún hóf atvinnumennskuna með Kristianstad sem varð í þriðja sæti í Svíþjóð og var önnur tveggja markahæstu leikmanna liðsins.
Þjálfararnir þrír í stafrófsröð
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu karla.
Vésteinn Hafsteinsson sem þjálfaði gull- og silfurverðlaunahafa í kringlukasti karla á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta sem varð heimsmeistari og Evrópumeistari og fékk bronsverðlaun á Ólympíuleikunum.
Liðin þrjú í stafrófsröð
Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum sem varð Evrópumeistari.
KA/Þór sem varð fjórfaldur meistari í handknattleik kvenna tímabilið 2020-21.
Víkingur úr Reykjavík sem varð Íslands- og bikarmeistari karla í fótbolta 2021.
Leikmenn KA/Þórs eftir að liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.