Fara í efni
Mannlíf

Mjög gefandi að gleðja gamla fólkið

Snorri Guðvarðsson hefur unnið aðdáunarvert sjálfboðastarf í ríflega aldarfjórðung, bæði einn síns liðs og með vinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Snorri Guðvarðsson, sá kunni gítarkarl og völundur með pensilinn, hefur leikið og sungið reglulega fyrir eldri borgara á dvalar- og hjúkrunarheimilum á Akureyri í um liðlega aldarfjórðung. Ástæðan er einföld: hann vill gleðja gamla fólkið. 

Ekki nóg með það; á dögunum gaf Lionsklúbburinn Hængur dvalarheimilinu Lögmannshlíð fimm gítara að beiðni Snorra og nú vinnur hann að því að fjármagna gítargjöf á Hlíð.

Vildi helst gráta

Þegar Snorri er beðinn að segja frá því hvernig þetta aðdáunarverða sjálfboðastarf kom til, segir hann: „Mamma gamla var í Bakkahlíðinni á heimili fyrir heilabilaða, eins og það var kallað þá. Ég fór stundum þangað með gítarinn og svo fór Pálmi heitinn í Tónabúðinni að koma líka með nikkuna vegna þess að mamma hans var þarna. Þegar við spiluðum gömlu lögin og fólk sem hafði jafnvel ekki sagt orð vikum saman fór að syngja með – því þær stöðvar í heilanum virka miklu lengur – þá vildi maður helst gráta,“ segir Snorri við Akureyri.net. 

„Þarna byrjaði ég, svo fór ég að spila á elliheimilinu Hlíð og þá var séra Gylfi Jónsson oft með mér, spilaði á nikku og hljómborð; hann hafði með Hlíð að gera sem prestur. Við spiluðum tveir á kráarkvöldum sem var rosalega gaman.“

Kráarkvöld á Lögmannshlíð á dögunum. Þar er gleðin jafnan við völd.

Engir peningar, bara gleði

Kráarkvöldin, sem Snorri kallar svo, urðu að veruleika á Hlíð fyrir aldamót og eftir að Lögmannshlíð var tekin í notkun hófu Snorri og vinir hans vitaskuld að koma fram þar. Nú spila þeir einu sinni í mánuði á hvorum stað. „Að auki komum við Ragga oft aukalega tvö til að spila á einhverjum deildum, svo eru jólauppákomur, þorrablót og hitt og þetta,“ segir Snorri.

Ragga er Ragnheiður Júlíusdóttir söngkona en aðrir í hljómsveit Snorra eru Finnur Finnsson bassaleikari, Ingólfur Jóhannsson hljómborðsleikari og Ómar Árnason trommari. „Trausti Ingólfsson trommuleikari hefur verið með okkur en hann er í fríi núna og Ómar leysir hann af.“

Rétt er að taka fram að ein aðdáunarverð regla hefur verið í gildi frá upphafi: Ekkert er greitt fyrir spilamennskuna. „Nei, það eru engir peningar í þessu. Ekkert til þess að gera þessar samkomur leiðinlegar!“ segir Snorri sem segir tónlistarmennina njóta þess mjög að gleðja gamla fólkið.

Hlíðin mín fríða – Vinir Snorra

Eftir að Snorri stofnaði hljómsveit á sínum tíma og hópurinn hóf að leika reglulega á dvalarheimilinu Hlíð fékk sveitin nafn: Hlíðin mín fríða, nema hvað.  „Svo var það einu sinni þegar ég komst ekki á kráarkvöld að bandinu var gefið nýtt nafn, mér tilkynnt um það og fékk engu ráðið. Nú heitir hljómsveitin Vinir Snorra,“ segir hljómsveitarstjórinn. 

„Á kráarkvöldunum mætum við um sexleytið og stillum græjunum upp, fáum okkur kaffi, byrjum svo að spila klukkan hálf sjö og spilum til klukkan átta. Við gerðum alltaf stutt hlé í den tid – fórum í pásu á miðju balli – en þá héldu margir að allt væri búið og fóru. Þess vegna spilum við nú alltaf í einni lotu. Barinn er opinn og fólk skemmtir sér jafnan konunglega.“

Snorri segir að vitaskuld hafi verið bleikt þema á kráarkvöldunum í október, eins og víða annars staðar. Þá var meðfylgjandi mynd af þeim Röggu og Finni tekin á kráarkvöldinu á Hlíð!

Hængurinn beit á agnið!

Snorri fékk þá hugmynd fyrir nokkrum misserum að gefa gítar á hvert heimili bæði á Hlíð og Lögmannshlíð. Á fyrrnefnda staðnum er hver gangur eitt heimili, alls níu, og Lögmannshlíð er skipt upp í fimm heimili.

„Ég vissi að margir afkomendur fólksins og aðrir gestir kunna að spila á gítar og hafa gaman af því en ekkert hljóðfæri var til staðar. Mér fannst því einboðið að fá einhvern til að fjármagna gítara inn á öll heimilin. Ég hófst handa fyrir þremur árum, sendi Lionsklúbbnum Hæng betlibréf, og Baddi í Slippfélaginu, Baldur Karlsson, sem þá var formaður, tók mér mjög vel. Segja má að hængurinn hafi bitið á agnið!“

Snorri og nokkrir vinir hans léku við hvern sinn fingur þegar gítararnir voru afhentir Lögmannshlíð að gjöf fyrir skemmstu. Frá vinstri: Baldvin B. Ringsted, Pétur Steinar Hallgrímsson, Snorri, Haukur Már Ingólfsson og Ragnheiður Júlíusdóttir.

Hvergi nærri hættur

Tónabúðin útvegaði hljóðfæri, nótnastatíf og alla aðra nauðsynlega fylgihluti, og ekkert var því til fyrirstöðu að afhenda gjafirnar á sínum tíma. Nema hvað áður en til þess kom skall á heimsafaraldur! Gítararnir voru settir í geymslu því ekki var mögulegt að halda neinar samkomur. Það var svo nýlega að þráðurinn var tekinn upp að nýju og hljóðfærin þá afhent við hátíðlega athöfn, á krárkvöldi seinni hlutann í október.

„Nú var lag, í orðsins fyllstu,“ segir Snorri. „Ég fékk nokkra vini mína til að koma, við spiluðum á gítarana og fólkið söng nokkur lög með okkur og svo var slegið upp balli í klukkutíma og kortér.“

Snorri er hvergi nærri hættur. „Nú þarf ég að finna einhverja sem eru til í að fjármagna gítara til að gefa á Hlíð,“ segir hann.

Ekki eru ýkjur að þessi góðverk Snorra og félaga, bæði spilamennskan og gítargjöfin, hlýja mörgum um hjartarætur. Ef fleiri mannvinir eins og Snorri Guðvarðsson væru á ferli væri heimurinn án efa betri en raun ber vitni.