Mikilvægt að fram fari ítarleg rannsókn
Bæjarráð Akureyrarbæjar leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að fram fari ítarleg, opinber rannsókn á rekstri barnaheimilisins í Richardshúsi á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar og aðbúnaði barna sem þar voru vistuð.
Á fundi bæjarráðs í morgun var rætt um málefni barnaheimilis sem rekið var á Hjalteyri á árunum 1972 til 1979 og eftirfarandi bókun samþykkt:
„Bæjarráð Akureyrarbæjar leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að fram fari ítarleg, opinber rannsókn á rekstri barnaheimilisins í Richardshúsi á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar og aðbúnaði barna sem þar voru vistuð.
Árið 1977 óskaði þáverandi félagsmálastjóri Akureyrar formlega eftir því við Barnaverndarráð Íslands að aðbúnaður barna á heimilinu yrði kannaður. Þeim ábendingum var ekki sinnt sem skyldi og í raun komið í veg fyrir að slík athugun færi fram. Af frásögnum fólks sem dvaldi í barnæsku á heimilinu má hins vegar ljóst vera að grunur félagsmálastjóra Akureyrar um slæman aðbúnað barna í Richardshúsi var á rökum reistur.
Tekið skal fram að Akureyrarbær kom á engan hátt að rekstri barnaheimilisins á Hjalteyri en barnaverndaryfirvöld sveitarfélagsins sendu á sínum tíma börn þangað til lengri eða skemmri dvalar.
Bæjarráð Akureyrarbæjar telur brýnt að leitt verði í ljós hið fyrsta hvað fram fór á heimilinu og hvers vegna var látið hjá líða að bregðast við beiðni félagsmálastjóra Akureyrar um skoðun á aðbúnaði barna þar.“