Fara í efni
Menning

„Mikið ævintýri í uppsiglingu“ á Melum

Þorbjörg Eva Magnúsdóttir (Una) Sveinn Brimar Jónsson (Siddi) og Bernharð Arnarson (Sumarliði) í góðum gír á sviðinu á Melum.

Nýtt, íslenskt leikrit – Í fylgd með fullorðnum – verður frumsýnt á Melum í Hörgárdal á fimmtudagskvöldið. Þar er um að ræða verk sem byggt er á lögum og textum Bjartmars Guðlaugssonar um Sumarliða og hans fólk, sem nánast hvert mannsbarn þekkti á árum áður og margir muna enn.

Bernharð Arnarson fer með hlutverk Sumarliða í sýningunni og segist nánast að rifna úr spenningi. „Hér er mikið ævintýri í uppsiglingu! Ég hef verið viðloðandi leikfélagið lengi, steig á svið á Melum í fyrsta skipti fyrir rúmlega 30 árum, en ég hef ekki upplifað svona mikla stemningu hér nema einu sinni áður – þegar við settum upp Með fullri reisn fyrir 11 árum og beru bændurnir slógu í gegn!“ segir Bernharð við Akureyri.net.

Frumsýning er á fimmtudaginn, sem fyrr segir. Verkið er einnig sýnt á föstudags- og laugardagskvöld í þessari viku, en síðan verða sýningar á föstudags- og laugardagskvöldum í mars og apríl. „Það er pakkuppselt á þessar fyrstu þrjár sýningur, örfáir miðar eftir aðra helgi og farið að seljast á sýningarnar um þar næstu helgi,“ segir Bernharð.

Pétur Guðjónsson hefur gengið með þá hugmynd í maganum í nokkur ár að setja saman leikrit sem byggir á geysilega vinsælum textum Bjartmars og nú er draumurinn loks orðinn að veruleika. „Hugmynd Péturs er algjörlega frábær, hann sækir persónurnar í texta Bjartmars og úr verður afar skemmtileg sýning.“

Líf Sumarliða og annarra sem Bjartmar orti um var býsna skrautlegt, eins og margir muna, enda segir Bernharð að allt litrófið sé að finna í verkinu. „Hér er boðið upp á allan tilfinningaskalann,“ segir hann. „Sumarliði er vissulega ein þeirra persóna sem verkið hverfist um en það fjallar aðallega um Birnu, dóttur Sumarliða og Krissíar; hún stendur á ákveðnum tímamótum, rétt rúmlega fimmtug og er að gera upp lífið.“

Leikarar í sýningunni eru 17, á aldrinum 11 til 61 árs. Þriggja manna hljómsveit er á sviðinu og að sögn Bernharðs koma um 50 manns að sýningunni á einn eða annan hátt.

Sannarlega spennandi verkefni og ljóst að margir eiga eftir að leggja leið sína í gamla samkomuhúsið á Melum á næstunni.

Miðasala á tix.is

Ylva Sól Agnarsdóttir (yngsta Birna), Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir (elsta Birna) og Fanney Valsdóttir (Krissí).