Fara í efni
Íþróttir

KA-menn búa sig undir átökin – MYNDIR

Arnar Freyr Ársælsson, sem gerði sigurmarkið gegn Selfossi í undanúrslitunum, fagnar holu í höggi í Minigarðinum í dag! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Leikmenn KA-liðsins í handbolta, sem mæta Val í úrslitaleik bikarkeppninnar í handbolta á morgun, hafa dvalið á borgarhorninu síðan þeir unnu Selfyssinga í undanúrslitum á miðvikudagskvöldið.

Þeir tóku létta æfingu í Framheimilinu í Safamýri í dag og síðdegis skelltu þér sér í Minigarðinn þar sem mannskapurinn gæddi sér á dýrindis svínarifjum og spreytti sig að því loknu í minigolfi, þar sem hver lék öðrum betur að því sagt er! Talað var um snilldartakta í því sambandi. Þórsarinn Vilhelm Einarsson er rekstrarstjóri Minigarðsins og bauð sínum gömlu keppinautum í golfið.

- Við Akureyringar stöndum saman þegar á þarf að halda, sagði Villi og óskaði KA-strákunum góðs gengis á morgun. - Ég meina það, sagði hann við Jónatan Magnússon, þjálfara KA, og báðir hlógu dátt. 

Reiknað er með miklum fjölda stuðningsmanna KA að norðan í fyrramálið þannig að stemningin á Ásvöllum ætti að geta orðið frábær á morgun.

  • Úrslitaleikurinn hefst klukkan 16.00 á morgun á Ásvöllum í Hafnarfirði. Hann verður í beinni útsendingu RUV.

KA-menn í skjóli Silfurdrengsins, Vilhjálms Einarssonar, þar sem hann stekkur á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og tryggir sér silfurverðlaun í þrístökki! Sonur hans, Sigmar, er eigandi Minigarðsins. Arnar Freyr Ársælsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Einar Rafn Eiðsson sitjandi, standandi eru Nicholas Satchwell og Patrekur Stefánsson.

Þórsarinn Vilhelm Einarsson, rekstrarstjóri Minigarðsins, á milli Sverre Jakobssonar og Jónatans Magnússonar, þjálfara KA.

Allan Norðberg býr sig vandlega undir næsta skot.

Fyrirliðinn Jón Heiðar Sigurðsson horfir einbeittir á eftir kúlunni.

Óðni Þór Ríkharðssyni eru yfirleitt allir vegir færir. Hér púttar hann upp brekku með góðum árangri.

Ólafur Gústafsson, Ragnar Snær Njálsson, Jón Heiðar Sigurðsson og Allan Norðberg.