Jón Laxdal Halldórsson – lífshlaupið
Jón Laxdal Halldórsson myndlistarmaður fæddist á Akureyri 19. júlí 1950. Hann lést 12. nóvember 2021 í Freyjulundi, heimili sínu í Hörgársveit.
Foreldrar Jóns voru Halldór Ólafsson úrsmiður og Oddný Laxdal. Bræður hans eru Ólafur og Halldór. Kona Ólafs er Gígja Gunnarsdóttir og dóttir þeirra Þóra Sif. Kona Halldórs er Halldóra Bjarney Skúladóttir og synir þeirra eru Skúli og Sölvi.
Fyrri eiginkona Jóns var Odda Margrét Júlíusdóttir. Hún lést árið 1993. Dóttir þeirra er Valgerður Dögg, eiginmaður hennar er Snorri Arnaldsson. Dætur þeirra eru Odda Júlía og Ugla. Unnusti Oddu Júlíu er Róbert Sveinn Lárusson.
Síðari sambýlis- og eiginkona Jóns er Aðalheiður S. Eysteinsdóttir. Dóttir þeirra er Brák, unnusti hennar er Þórir Hermann Óskarsson. Börn Aðalheiðar eru Arnar Ómarsson og Þórey Ómarsdóttir. Börn Þóreyjar eru Ylfa Marín Kristinsdóttir, Alvar Breki Kristinsson og Amelía Kristinsdóttir.
Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1971 og lagði stund á heimspeki við Háskóla Íslands á árunum 1971 til 1975. Hann var einn af aðstandendum Rauða hússins á Akureyri og stundaði eigin myndlist daglega alla tíð. Jón var ljóðskáld og starfaði með hljómsveitunum Norðanpiltum og Bjössunum. Hann starfaði sem barnakennari í nokkur ár, við Lundarskóla á Akureyri, kenndi við Myndlistaskólann á Akureyri og starfaði lengi í þjónustukjörnum á vegum Akureyrarbæjar.
Jón fékkst við myndlist frá árinu 1980 í framhaldi af ljóðlist. Verk hans bera sterk ummerki ritaðs máls og heimspeki í bland við úrsmiðjuna sem hann ólst upp í. Með árunum þróuðust verkin í þrívíða fleti og samsetta fundna hluti. Klippimyndirnar eru þó hans aðalsmerki og höfundareinkenni.
Myndlist Jóns Laxdal hefur verið sýnd mjög víða, bæði hérlendis og erlendis, og listaverkasafnarar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa fest kaup á verkum hans. Jón var titlaður bæjarlistamaður Akureyrar árið 1993 og myndlist hans er í eigu Listasafns Reykjavíkur og Listasafnsins á Akureyri.
Útför Jóns Laxdal verður í dag, 27. nóvember 2021, klukkan 13 frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Þau sem ætla sér að vera við útförina eru beðin að fara í hraðpróf fyrir komu.