Fara í efni
Umræðan

Íslensk matvælaframleiðsla í fremstu röð

Matvælaframleiðsla þjóðarinnar er ein af grunnstoðum þess að við byggjum sjálfbært og sjálfstætt samfélag til framtíðar. Það er engum blöðum um það að fletta að víða liggja vannýtt tækifæri í landbúnaði á Íslandi. Þrátt fyrir það hefur íslenskur landbúnaður staðið höllum fæti um langa hríð og farið halloka í umræðu og forgangsröðun stjórnvalda. Þar sem sóknarfærin eru víða þarf að huga að allri virðiskeðju matvælaframleiðslunnar, allt frá frumframleiðslu bænda og innlendri kjarnfóðurframleiðslu að úrvinnslu matvæla á öllum stigum, alla leið á disk neytandans. Skapa þarf jákvætt starfsumhverfi frumkvöðla sem leita leiða til að fullnýta afurðir, minnka umhverfisspor og búa til verðmæti úr áður ónýttum afurðum. Ódýr hrein orka, hreint vatn og loft leika lykilhlutverk í framtíðarmatvælaframleiðslu á Íslandi.

Mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur verið flestum ljós og enn frekar eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á þjóðinni. Miðflokkurinn lagði fram þingsályktun í október sl. sem kvað á um að fela forsætisráðherra að hrinda í framkvæmd 24 aðgerðum um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar í samstarfi við bændur.

Meðal markmiða tillögunnar er að stórefla innlenda matvælaframleiðslu, tryggja matvæla- og fæðuöryggi, veita neytendum umhverfisvæna, holla og næringarríka fæðu, treysta afkomu bænda, auka sjálfbærni og umhverfisvernd, varðveita þekkingu, efla rannsóknir og menntun í landbúnaði, auka skilning á mikilvægi landbúnaðarframleiðslu og vernda landgæði. Íslendingar vilja öfluga og innlenda matvælaframleiðslu sem þeir þekkja og geta treyst. Eftirspurn eftir matvælum úr nærumhverfinu hefur sjaldan verið meiri og eykst með aukinni vitneskju neytandans um kosti innlendrar framleiðslu.

Um allt land má sjá merki þess að einstaklingar og fyrirtæki sjái tækifæri til að skapa verðmæti úr áður ónýttum afurðum og um leið störf. Góðar hugmyndir hafa orðið að veruleika með þrotlausri vinnu. Efla þarf virðiskeðju matvælaframleiðslunnar allt frá frumframleiðslu bænda og innlendri kjarnfóðurframleiðslu til úrvinnslu matvæla á öllum stigum, alla leið til neytandans.

Hefðbundnar greinar í landbúnaði hafa verið og eru í vörn. Staða innlendra framleiðenda gagnvart innfluttri vöru er erfið og snýr t.d. að tollamálum og samkeppnismálum, en líkt og aðrir innlendir framleiðendur á landbúnaðurinn mikið undir samstarfi og vilja verslunarinnar. Þetta á við um allar stærstu greinar landbúnaðarins: sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu, nauta- og svínakjötsframleiðslu og garðyrkju. Þrátt fyrir áskoranir eru sóknarfærin til staðar ef landbúnaðinum eru sköpuð skilyrði til að starfa og þróast. Til að nýsköpun og þróun fái þrifist innan greinarinnar þarf stöðugleika og framtíðarsýn.

Eigi landbúnaðurinn að vera í stakk búinn til að laga sig að breytingum í tímans rás og geta nýtt tækifæri sem víða liggja er nauðsynlegt að stórefla rannsóknir, nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þetta markmið er enn brýnna nú en fyrr þar sem hætta er á að frjósöm landbúnaðarsvæði í öðrum heimshlutum spillist að hluta vegna hlýnunar og aukins vatnsskorts.

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Miðflokkinn og skipar 2. sæti listans fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15

Nei þeir mega það ekki!

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:00

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30