Fara í efni
Pistlar

Gamla konan

Ég sá strætisvagninn aka framhjá, bölvaði í hljóði, hefði betur flýtt mér örlítið þá hefði ég ekki misst af vagninum. Það var ískalt næstum því 20 gráðu frost. Hálftími í næsta vagn, frábært eða hitt þó heldur, við þessar aðstæður yrði minn eilífi bardagi við vondar hugsanir í besta falli erfiður.

Þegar ég kom að biðstöðinni var öldruð kona þar. Hún studdi sig við göngugrind og var greinilega mjög þreytt. Hún leit á mig og brosti. „Vagnstjórinn mátti ekki vera að því að bíða eftir mér, ég átti bara nokkra metra eftir, ég kemst nú ekkert hratt yfir“ sagði hún og klappaði á göngugrindina.

Ég settist við hliðina á henni. Hún spurði hvort hún mætti færa sig nær mér til að fá smá skjól, það fannst mér krúttlegt.

Svo byrjaði hún að tala.

Hún sagði að nú væri hún að yfirgefa þetta bæjarfélag í síðasta sinn, hún hefði bara þurft að ganga frá húsinu sínu, nú færi hún tilbaka á elliheimilið þar sem hún byggi núna. Hún sagði að hún og maðurinn hennar hefðu byggt húsið fyrir meira en fimmtíu árum síðan, það væri ósköp lítið en hefði dugað þeim vel þar sem að þeim hefði aldrei verið barna auðið. Hún sagði að hún ætti enga erfingja en maðurinn hennar heitinn hefði átt frænku sem byggi í Danmörku og hún myndi erfa hann. Þess vegna væri hún ekki lengur hún, heldur dánarbú og réði engu um eigur sínar. Henni væri svo sem alveg sama um það, hún hefði það fínt á elliheimilinu. Verst væri að frænkan væri eiturlyfjaneytandi og eiturlyfjasali og væri stöðugt að hóta henni lífláti. Hún sagðist hafa talað við lögregluna hér í Svíþjóð en þeir hefði bara skellt á hana. Hún hefði þá hringt í lögregluna í Danmörku og þeir hefðu tekið hana alvarlega þar sem þeir þekktu frænkuna vel enda væri hún tengd inn í einhverjar glæpaklíkur þar. Danirnir hefði því talað við kollegana sína í Svíþjóð og nú fylgdust þeir með elliheimilinu. Þeir hefðu að vísu ekki tekið eftir þegar hún fór þaðan um morguninn.

Svo leit hún á mig, glotti og sagði að kannski myndu vinir frænkunnar nota tækifærið meðan hún biði hér eftir strætó, hvort ég væri ekki til í smá hasar. Svo hló hún hátt og innilega og hnippti í mig með olnboganum. Ég hló líka, sú gamla var alveg mögnuð.

Svo varð hún alvarleg aftur. Hún sagði að sér hefði alltaf fundist notalegt að koma heim til sín og hitta manninn sinn, nema í síðasta skiptið.

Ég leit á hana með spurnarsvip. Hún leit undan og sagði svo hljóðlega: „Hann hékk í stofunni, hann hafði hengt sig.“

Strætó kom, ég hjálpaði henni inn í vagninn. Hún settist og tók í hönd mína, „takk fyrir að þú nenntir að hlusta á mig, vinur“. Ég þrýsti hönd hennar og brosti.

Það var reyndar mitt að þakka henni, hún hafði fengið mig til að gleyma eigin sjálfsvorkunn, það er hægt að þakka fyrir minna.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00