Fara í efni
Fréttir

Engin merki um að fólki hafi verið byrlað

Engin merki fundust um deyfilyf eða fíkniefni í blóði fólks sem grunaði að því hefði verið byrlað á Akureyri fyrr í vetur. Greint var frá þessu á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í dag.

Á síðu lögreglunnar segir:

„Í lok október síðastliðnum fékk Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra til rannsóknar þrjú mál vegna gruns um að þremur einstaklingum hafi verið byrlað lyf eða fíkniefni á skemmtistöðum eða í heimahúsum á Akureyri.

Í tilefni af þessum málum voru tekin blóðsýni úr þeim aðilum sem tilkynntu grun um byrlun. Í öllum tilvikum voru sýnin tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot og strax eftir að afskipti lögreglu hófust. Við rannsókn á sýnunum kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu en engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni.

Lögreglan hafði áður haft afskipti af fjórða aðilanum sem taldi að sér hefði verið byrlað. Að mati læknis var ekki talið að um byrlun væri að ræða í því tilviki og voru ekki tekin blóðsýni.“