Fara í efni
Pistlar

Bognar stangir og strekktar línur

VEIÐI –

Loksins þegar sumarið lét sjá sig kom það með hvelli. Brakandi blíða uppá hvern dag og árnar í Eyjafirði urðu að beljandi stórfljótum í kakólitnum góða. Veiðistangirnar fengu að standa uppá endann meðan á þessum ósköpum stóð en um miðbik júlímánaðar var loks hægt að bleyta línurnar og renna fyrir lax.

En hvernig skyldi laxveiðin hafa gengið hér á norðausturhorninu? Ég heyrði í Sigurði Ringsted formanni Stangaveiðifélagsins Flúða fyrir nokkrum dögum til að forvitnast um laxveiðina í Fnjóská. Gefum Sigurði orðið:

„Það eru komnir um það 120 laxar, sem er nokkurn veginn sami fjöldi og á sama tíma í fyrra.

Tveggja ára laxar eru nokkuð færri en við áttum von á og göngur eins árs laxa hafa verið frekar rólegar. Veiðimönnum er heimilt að taka einn hæng undir 70 sm á vakt en hrygnurnar eru friðaðar“.

Já, og þeir geta verið stórir í Fnjóská. Sigmundur Ófeigsson var við veiðar í ánni fyrir skömmu og fékk ásamt félaga sínum tvo fallega laxa í hylnum Nesbugðu, 80 sm hrygnu og 87 sm hæng en báðir fiskarnir voru settir í kistu fyrir klaklaxa. Stærsti lax sumarsins í Fnjóská fram til þessa er þó 105 sm eða áætluð 11 kg ef marka má rafræna veiðibók á heimasíðu Flúða. Ennþá er eftir rúmur mánuður af veiðitímanum í ánni og því góðir möguleikar að setja í fleiri stóra.

En áfram að laxi á norðausturhorninu. Matthías Þór Hákonarson, leigutaki Mýrarkvíslar, var kampakátur þegar undirrituð heyrði í honum fyrir fáeinum dögum. Hann sagði veiðina í sumar þá bestu í ánni hingað til en Matthías er búinn að vera með ána á leigu s.l sjö ár. Hann sagði að síðustu daga hefðu verið öflugar göngur af laxi í ánni; lax á bilinu 60 - 75 sm. Ríflega 60 löxum hefði verið landað á síðustu rúmum 2 vikum. Þegar ég falast eftir veiðidegi er svarið stutt og laggott; Áin er uppseld ! En eins og margir vita er Mýrarkvísl ekki bara þekkt fyrir fallega laxa og urriða. Ein af vinsælustu gamanmyndum Íslands síðustu ára, Veiðiferðin, var tekin upp við ána.

Þótt norðanmenn séu nokkuð sáttir við laxveiðina það sem af er, er ljóst að laxveiðin almennt hefur verið með minna móti á landsvísu. En það er nóg eftir af veiðitímabilinu, flestar ár opnar framundir 20. september eða lengur. Við fáum því vonandi að sjá hækkandi veiðitölur eftir því sem líða tekur á sumarið.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Sigmundur Ófeigsson með 80 sm hrygnu úr Fnjóská.

Ægir Jónas Jensson með 87 sm hæng úr Fnjóská, nánar tiltekið hylnum Nesbugðu.

 

Sebastien Adgnot með flottan hæng úr Mýrarkvísl.

Pamela Moss með glæsilega hrygnu úr Mýrarkvísl.

Sebastien Adgnot með vænan urriða úr Mýrarkvísl.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00