Fara í efni
Íþróttir

Bestu fótboltaliðin í „Bestu deildinni“

Nýr farandgripur Íslandsmeistara í meistaraflokki karla og kvenna verður skjöldur - ámóta þeim sem Þjóðverjar hafa notað í áratugi. Myndin er frá kynningu Íslensks Toppfótbolta í dag.

KA leikur í Bestu deild karla í knattspyrnu í sumar og Þór/KA í Bestu deild kvenna. Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök félaga í efstu deildum, tilkynnti í gær breytingar á nafni deildanna, nýtt merki og nýjan verðlaunagrip.

Ölgerðin hefur verið aðal samstarfsaðili Knattspyrnusambands Íslands vegna Íslandsmótsins um árabil og efstu deildir karla og kvenna borið nafnið Pepsi deild og síðar Pepsi Max deild.

Nú verður breyting á – Besta deildin skal hún heita, og aðalstyrktaraðilar eru þrír; Eitt Sett, Steypustöðin og Lengjan.

Í gær var einnig kynnt nýtt merki deild­anna og nýr verðlauna­grip­ur sem verður ekki bikar, eins og verið hefur síðan 1912, þegar fyrsta Íslandsmótið fór fram, held­ur meist­ara­skjöld­ur eins og margir þekkja frá Þýskalandi.

­Nýtt vörumerki Bestu deildarinnar er byggt á merki sem grafið var á fyrsta bikar Íslandsmótsins frá 1912; mynd af Íslandi og fálka umvafið lárviðarkransi. Í merkinu, sem er boltalaga, eru fimm fálkar.

Keppni í Bestu deild karla hefst 18. apríl með leik Íslandsmeistara Víkings og FH. Besta deild kvenna hefst með tveimur leikjum 26. apríl. Fyrsti leikur KA verður gegn Leikni á heimavelli miðvikudag 20. apríl – væntanlega á Dalvíkurvelli – og fyrsti leikur Þórs/KA verður miðvikudag 27. apríl á útivelli gegn Breiðabliki.