Aðstoða ökumenn á lokaðri Öxnadalsheiði
Félagar í björgunarsveitinni Súlum þurftu að aðstoða nokkra ökumenn á Öxnadalsheiði í dag. Heiðin var lokuð og veðrið slæmt, en fólk hélt engu að síður á heiðina.
„Kæru lesendur. Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir það gamla. Okkur langar að biðja ykkur að fara nú varlega í umferðinni, leggja ekki á heiðarvegi án þess að kanna með færð og veður,“ segir í skeyti frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra fyrir klukkustund. „Nú er Öxnadalsheiðin ófær en samt sem áður hafa einhverjir ökumenn talið rétt að leggja á heiðina, fram hjá lokunum og kalla nú eftir aðstoð, alveg steinhissa. Verið er að kalla út björgunarsveit til að koma fólkinu til aðstoðar en dráttarbílafyrirtæki sem fór til aðstoðar hefur gefist upp vegna veðurs. Takið þessu rólega og verið bara heima í kósý, hitið kakó og borðið smákökurest og farið af stað þegar veður lægir.“