Eiki Helga: „Urðum að bjarga vetrinum“
Brettamenn hafa lengi átt sér gott afdrep sunnan undir skautahöllinni í Innbænum. Næstu daga verður það eini staður bæjarins þar sem fjöldinn getur leikið listir sínar, eftir að Eiríkur Helgason varð að loka Braggaparki sínu á Eyrinni tímabundið vegna samkomutakmarkana og skíðasvæðinu í Hliðarfjalli var sömuleiðis lokað.
„Fyrst við þurftum að loka og þeir í Hlíðarfjalli líka langaði okkur að redda páskafrínu og drifum í að smíða nýtt æfingahandrið fyrir snjóbretti til að bæta aðstöðuna bakvið skautahöllina,“ segir Eiki við Akureyri.net.
Eika segir þá brettavinina lengi hafa langað að bæta við stóru handriði á svæðinu en aldrei haft sig í það. „Þegar öllu var lokað fannst okkur fullkominn tími til að hendast í þetta og bjarga restinni af vetrinum hjá okkur snjóbrettaliðinu. Við urðum að bjarga vetrinum,“ segir hann.
Þegar Eiki fær hugmynd er hún gjarnan framkvæmd. Ekkert er verið að tvínóna við hlutina. „Ég keypti slatta af stáli og bjallaði í Svavar Jensen félaga minn, við fengum lánaðar suðugræjur hjá B. Jensen og fórum svo bara á fullt að smíða! Nú er þetta klárt, við erum búnir að setja handriðið upp og allir geta komið og leikið sér. Gamla, góða rörið er enn á staðnum ásamt fleiru þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“
Eiki segir engan verða svikinn. „Við tókum létta æfingu í gær, og þetta er algjör draumur!“ sagði hann.
Eiki tók sig til með vini sínum og smíðaði handrið sem sett hefur verið upp sunnan við Skautahöllina og hver sem er getur nú notað.