Fara í efni
Mannlíf

Tvö verk Margeirs, Georgs og Freyju í Braggaparkinu

Eiki Helgason og Sigurður Gestsson, faðir listamannsins Margeirs Dire, við annað verkið í Braggaparkinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Tvö stór listaverk Margeirs Sigurðarsonar, sem notaði listamannsnafnið Dire, Georgs Óskars og Freyju Reynisdóttur, frá árinu 2013, voru hengd upp í Braggaparkinu á Akureyri um síðustu helgi. Sömu helgi var verk Margeirs frá Akureyrarvöku 2014 endurgert í Kaupvangsstræti og vakti það mikla athygli. Margeir lést 2019.

Hluti Réttardags

Verkin, sem nú prýða Braggaparkið, voru hluti af ógleymanlegri sýningu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í tilefni fimmtugsafmælis hennar.  Sýningin, Réttardagur, var endapunktur í 50 sýninga röð og Aðalheiður lagði undir sig allt Listagilið; opnaði 10 sýningar í sjö rýmum og fjöldi listamanna af svæðinu tók þátt í verkefninu. Meðal þeirra voru þremenningarnir og þöktu verk Margeirs, Georgs Óskars og Freyju mest allan veggflöt Deiglunnar. „Ég fékk marga listamenn til að vinna verk í samstarfi við mig, undir áhrifum frá mínum verkum,“ segir Aðalheiður við Akureyri.net. „Ég setti lágmyndir inn í verkin þeirra í Deiglunni en tók þau aftur eftir að sýningunni lauk. Verkin fóru í geymslu á vinnustofum ofan við Listasafnið, og hafa svo lent hingað og þangað.“

Tenging við braggana

Sigurður Gestsson, faðir Margeirs, vissi ekki af verkunum þegar listakonan Anna Gunnarsdóttir hafði samband við hann fyrir skemmstu. Myndirnar höfðu lent í geymslu hjá Önnu, hún var að flytja úr bænum og hvatti Sigurð eindregið til að bjarga verkunum.

„Mér datt fyrst í hug að hringja í Eika í Braggaparkinu og hann sagði strax já,“ segir Sigurður við Akureyri.net og útskýrir hugmyndina þannig að þar finnist honum verkin vera á heimavelli. Bæði hafi Margeir og vinir hans verið miklir brettamenn, auk þess sem verkin séu mjög hrá, eins og margt í kringum sportið, en ekki síður vegna að Gestur Hjaltason, faðir Sigurðar og afi Margeirs, starfaði mjög lengi í bröggunum þar sem brettagarðurinn er nú á Eyrinni.

Eiríkur Eiki Helgason, brettameistari, kom þar upp glæsilegri aðstöðu fyrir brettafólk eins og margir vita.

„Í þessum bröggum, sem Vélsmiðjan Oddi átti, var bobbingaverksmiðja sem framleiddi gríðarlegt magn, smíðaði bobbinga fyrir allan fiskiskipaflotann held ég. Pabbi sá um að smíða allar vélar og tæki sem þurfti fyrir bobbingasmíðina og starfaði síðan við það lengi, sennilega yfir 20 ár. Ég er því rosalega ánægður með þá lendingu að verkin verði í geymslu hér,“ segir Sigurður Gestsson.

  • Að neðan: Sigurður Gestsson og Eiki Helgason við verkin  tvö í Braggaparkinu.