Tími sem við fjögur eigum eftir að minnast
Óvenju mikið líf og fjör var í Aðalstræti 82 síðustu mánuði. Sigrún Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur og háskólakennari, og eiginmaður hennar Yngvar Bjørshol, blaðamaður, eru vanalega tvö í kotinu en frá miðjum september til jóla dvöldu hjá þeim tveir ömmustrákar Sigrúnar, Víkingur Svarfdal Héðinsson, sjö ára, og Goði Svarfdal Héðinsson, 11 ára.
Strákarnir bjuggu með foreldrum sínum í Kosta Ríka í Mið-Ameríku liðlega tvö ár en vegna kórónuveirufaraldursins var skóla þeirra skellt í lás í febrúar. Þegar skólastarf hófst ekki á ný síðsumars og ekkert útlit fyrir að það yrði á næstunni, var ákveðið að strákarnir kæmu heim á Frón og þeir hafa gengið í Brekkuskóla síðan í haust.
Foreldrar þeirra eru Héðinn Svarfdal Björnsson, sonur Sigrúnar, og Elva Sturludóttir. Reyndar fór svo að Héðinn og Elva ákváðu einnig að snúa heim; komu til landsins skömmu fyrir jól, losnuðu úr sóttkví á Þorláksmessu og komu rakleiðis norður. Þau verða hér áfram og eru bæði komin með vinnu frá áramótum.
Ferðalag drengjanna heim í haust var mikið ævintýri og tók langan tíma, vegna sóttvarna hér og þar. Faðir þeirra fylgdi þeim til Kaupmannahafnar, með viðkomu í Madrid og París, og þaðan flugu þeir til Íslands. Það tók Héðin svo eina 20 daga að komast aftur til Kosta Ríka, vegna Covid-prófa, langrar biðar eftir niðurstöðum, og stopulla flugferða!
Hvað um það; bræðurnir eru alsælir í skólanum, enda segir Sigrún að einstaklega vel hafi verið tekið á móti þeim.
Víkingur og Goði, voru í góður yfirlæti síðustu mánuði, enda svo heppnir að móðuramma þeirra og afi, Friðbjörg K. Hallgrímdóttir og Freyr Áskelsson, búa einnig á Akureyri. Skóladaga gistu þeir í Aðalstrætinu en um helgar hjá Friðbjörgu og Frey.
Fljótur að skilja spænsku
„Það er gaman að vera hér, þótt það sé miklu kaldara,“ segir Víkingur, skrafhreifinn og skemmtilegur drengur, þegar Akureyri.net sest niður og spjallar við heimafólk í Aðalstrætinu. Eldri bróðirinn, Goði, sem er í 6. bekk Brekkuskóla, segir hafa verið ágætt að koma heim. „Það var samt skemmtilegra úti. Miklu heitara.“ Hann er svo að mestu upptekinn við annað inni í herbergi meðan við hin spjöllum.
„Ég byrjaði í skóla á Kosta Ríka, í 1. bekk, og eignaðist marga vini. Kunni ekkert í spænsku þegar við fórum út en var fljótur að skilja helling af því að tala við vini mína,“ segir Víkingur.
„Ég var mikið að rækta plöntur og að bjarga dýrum,“ svarar hann þegar spurt er um hvað þeir hafi helst haft fyrir stafni ytra. „Ég bjargaði dýrum tvisvar sinnum, ketti og hundi. Einu sinni var fjögurra eða fimm ára strákur, sem var vinur minn, sem fann kisu. Hann hélt á henni, samt ekki undir hana eins og á að gera heldur bara svona,“ segir Víkingur og lýsir takinu, sem var dýrinu greinilega ekki að skapi. „Hann sat og strauk kisunni þegar ég spurði hvort ég mætti strjúka henni og þá sleppti ég henni svo hún gat hlaupið aftur út í litla skóginn. Þá reyndi litli strákurinn að klóra mig og kýla mig og lemja mig ...“ Ekki sáttur sá stutti en Víkingur slapp óskaddaður!
Fjölbreytt framtíð
„Viltu vita hvað ég var að rækta? Ananas, banana, tómata, mango, papaylla, chili og paprikur.“
Víkingur er ekki hættur því hér heima ræktar hann híasyntu og fleiri blóm og langaði í plöntu í jólagjöf, að sögn ömmu hans. „Ég ræktaði ekki ananasinn,“ segir hann svo til útskýringar og er kominn á til Kosta Ríka í huganum. „Hann var þarna þegar ég kom en ég ræktaði allt hitt. Ananasinn vex bara upp úr jörðinni, það er runni og kaktus og svo vex ananasinn í miðjunni.“
Þessi ungi maður hefur alltaf nóg fyrir stefni og veit hvað hann vill. „Þegar ég verð stór ætla ég að verða ræktunarmaður, ég ætla að fara í dýragarð og bjarga dýrum, vera söngvari og frjálsíþróttakennari.“
Hann situr nefnilega ekki auðum höndum hér frekar en úti. „Ég æfi frjálsíþróttir og mæti alltaf; við erum að hlaupa og stökkva og kasta, hoppum stundum yfir stöng. Ég er líka oft að föndra, mest í skólanum, en ég föndraði ekki þessi gæja,“ segir Víkingur og bendir út í glugga. „Amma gerði það.“
Sigrún játar. „Maður man allt í einu allt mögulegt sem maður hélt að væri gleymt! Mig dreymdi eina nóttina að við gætum búið til svona karla og dreif í því.“
Svo kemur í ljós að Víkingur er sérfræðingur í Ólsen, ólsen. „Ég held ég hafi unnið ömmu 20 sinnum í röð! Hún man örugglega ekkert eftir því.“
„Jú,“ segir Sigrún. „Það var svo hryllilegt að ég gat ekki sofið.“
„Nú, varstu kannski að æfa þig í nótt svo þú getir unnið mig næst?“
Óvenju bjart haust!
„Við þekktum þá vel en höfum ekki búið með börnum lengi og aldrei alið upp börn saman. Þetta hefur verið mikið ævintýri; við verðum að vera samtaka og hafa gaman af þessu, og það hefur tekist,“ segir Sigrún, spurð um breytinguna á heimili þeirra hjóna. „Venjulega er haustið langt og þungt og dimmt – en ekki þetta haust!“ segir hún og Yngvar kinkar kolli.
Þegar Sigrún segir að þau hafi yngst við verkefnið hlær Yngvar. Nefnir að oft hafi verið gott að hvíla sig um helgar, þegar strákarnir voru ekki hjá þeim!
En þetta hefur greinilega verið góður tími, og á eftir að verða dýrmætur í minningunni. „Við höfum búið okkur til góða tilveru hér í haust og ég er viss um að þetta verði tími sem við fjögur eigum eftir að minnast,“ segir Sigrún.
„Við Yngvar höfum komist að því að við hefðum viljað ala upp börn saman, því erum mjög góð í þessu, en við hittumst of seint til þess. Við skiptum verkum og hér gengur allt eins og færiband; á morgnana bý ég um rúmin en hann býr til hafragraut, hann keyrir þá svo í skólann og ég set í þvottavélina. Það er alltaf nóg að gera.“
Mörg hefðbundin verkefni Yngvars og Sigrúnar duttu upp fyrir í haust, vegna Covid. „Það var því kærkomið verkefni að hafa strákana,“ segir hún.
- Á myndinni eru Goði og Víkingur við jólatréð í Aðalstræti 82, sem var óvenjulegt í ár. Efsti hluti 60 ára gamals trés sem fellt var í garði Sigrúnar og Yngvars stuttu fyrir jól.