Fara í efni
Mannlíf

Syngur Amy Winehouse lagið Back to Black

Natan Dagur og Ina Wroldsen, þjálfari hans í keppninni. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson syngur lagið Back to Black í átta manna úrslitum norsku The Voice söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV2 í kvöld. Söngkonan Amy Winehouse samdi lagið og gerði það gríðarlega vinsælt á sínum tíma.

„Mér hefur gengið mjög vel á æfingum og sviðsframkoman verður smám saman betri þótt það sé takmarkað hve stór skref er hægt að stíga þegar maður kemur fram í fimm skipti!“ sagði Natan við Akureyri.net.

Það voru framleiðendur þáttanna sem stungu upp á að hann syngi umrætt lag og Natani leist strax vel á það. „Ég er mjög ánægður með lagavalið, vegna þess að ég laginu mjög vel. Útsetningin er ekkert ósvipuð þeirri sem hún söng sjálf en þó líkari útgáfu sem Sam Fender söng,“ sagði Natan.

„Jú, ég er bjartsýnn, hef verið það allan tímann og ætlaði mér frá upphafi að fara alla leið. Ég er búinn undir að fara áfram en líka undir það að að detta út. Ég vona bara það besta og geri mitt besta – vonandi dugar það,“ sagði Natan.

Þátturinn hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu. Íslendingar geta kosið á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar. Smellið hér til að fara inn á síðuna. Hægt er að kjósa þrisvar sinnum úr hverju tæki (hverri IP tölu) án þess að greiða neitt fyrir.