Stutt á miðin og mjög gott fiskirí
Gunnar Hannesson skipstjóri og hans menn á dagróðrabátnum Sæbjörginni EA 184 hafa veitt vel í allan vetur. Þeir eru á netum og stutt er á miðin þessa dagana; Akureyri.net fór út með þeim í rauðabítið í morgun og ekki liðu nema 20 mínútur frá því lagt var úr höfn á Akureyri þar til komið var að trossunum fjórum sem þeir lögðu í gær út af Svalbarðseyri. Þeir komu með níu tonn að landi í gær og í fyrstu trossu sem dregin var í morgun reyndust þrjú og hálft tonn.
Þeir eru fjórir um borð, auk Gunnars þeir Hannes Arnar sonur hans, Sigurður bróðir skipstjórans og Þór Vilhjálmsson. Þeir veiddu við Grímsey í vetur og út af Hvanndalabjargi utan Ólafsfjarðar fyrir páska en hafa lagt trossurnar á þessum slóðum upp á síðkastið. Þeir gera ráð fyrir því að koma inn til löndunar í hádeginu.
Meira um þá félaga síðar.
Sigurður Hannesson, Þór Vilhjálmsson og Hannes Arnar Gunnarsson með hnífana á lofti í Sæbjörginni snemma í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.