Fara í efni
Mannlíf

Stelpa hægra megin, strákur vinstra megin

Barnahópurinn í Bergi ásamt kennurum sínum. Þeir eru, frá vinstri, Óli Steinar, Berglind, Lovísa, Sigríður og Rut.

Börnin í Bergi, einni deilda leikskólans Tröllaborga, báru sigur úr býtum í hugverkasamkeppni sem jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands (JAKÍ) stóð fyrir. Keppt var í fimm ólíkum flokkum eftir aldursstigum allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Börnin á Bergi í Tröllaborgum eru fædd 2015 og 2016. Verkið þeirra kallast Blær, og fjallar um líkamsvirðingu.

Umsögn dómnefndar var svohljóðandi:

„Blær er einstaklingur sem leikskólabörnin mótuðu, allt frá því að setja fram beinagrindina til eiginleika og útlits. Verkefnið hefur fjölþætta nálgun, er vandað og sýnir fagmennsku kennara og áhuga barnanna í skýru ljósi. Hér er verkefni sem sýnir hvernig byggja má upp samtal í gegnum reynslumiðað nám og þekkingarleit um kynin, margbreytileika og félagsmótun. Hér hefur kennari í samtarfi við nemendur nýtt einstakt tækifæri til að ræða staðal - og kynjamyndir, eins og kemur fram „Í þeirra huga var ekkert eðlilegra en að tvö kyn væru saman í einum líkama". Það er hvetjandi að sjá hvernig vinna má með kynjasjónarmiðin með okkar yngsta fólki og taka dómarar heilshugar undir lokaorð samantektar með verkefninu, framtíðin er björt!“

Kennarar sem voru á kantinum með leikskólabörnunum af Tröllaborgum voru Sigríður Fossdal, Rut Viktorsdóttir, Óli Steinar Sólmundarson, Lovísa Jónsdóttir og Berglind Róbertsdóttir.

Stelpa hægra megin - strákur vinstra megin

Kennararnir á Tröllaborgum lýsa verkefninu skemmtilega. Lesa má um það hér:

„Verkefnið fór af stað eftir að einn kennari hafði komið með litla dóta beinagrind í samverustund til að sýna börnunum. Umræður urðu í kjölfarið um nöfn beinanna sem og að við værum öll með jafnmörg bein í líkamanum okkar. Upp frá því kviknaði forvitni barnanna um líkama sinn sem varð að eftirfarandi vinnu.

Ákveðið var að gera beinagrind í fullri stærð og setja á hana það sem þarf til að skapa manneskju. Kennararnir notuðu myndvarpa til þess að kasta beinagrindaglæru upp á vegg og börnin hjálpuðust að við að draga beinagrindina upp á blað. En hvað fleira áttum við öll sameiginlegt? Börnin urðu sammála um að allir væru með maga, heila, lungu, hjarta, æðar og auðvitað húð. Þau skoðuðu líffærin í bókum og á netinu með kennurunum og úbjuggu svo líffæri til að setja innan í beinagrindina. Að lokum fundu þau gulleitt efni sem þau vildu nota sem húð og festu þau lag af henni yfir grindina og notuðu pappadisk til þess að hafa sem höfuð.

Þegar „manneskjan“ var tilbúin og börnin áttu bara eftir að setja hana í föt, vandaðist málið. Hvort var þetta stelpa eða strákur ? Miklar umræður áttu sér stað innan barnahópsins, stelpurnar vildu hafa hana sem stelpu en strákarnir vildu að hún væri strákur. Einn drengjanna (5 ára) kom þá fram með snilldarhugmynd um að þau skiptu henni til helminga. „Manneskjan“ yrði stelpa hægra megin og strákur vinstra megin og sættust öll börnin á þessa tillögu. Börnin hófust þá handa við að búa til föt á manneskjuna úr efnisbútum og unnu þau það allt í sameiningu. Hári var skellt á hana og settu þau sítt bleikt glimmer hár hægra megin en stutt svart vinstra megin. Útkoman var mjög skemmtileg og hugmyndir barnanna afdráttarlausar um það hvernig þau sjá fyrir sér karlkyn og kvenkyn.

Þegar „manneskjan“ var tilbúin að mati barnanna spurðu kennararnir börnin hvað hún ætti eiginlega að heita. Eftir nokkrar vangaveltur stakk ein stúlka (5 ára) upp á því að hún ætti heita Blær því að það væri bæði stráka- og stelpunafn og voru börnin hin ánægðustu með þá uppástungu. Það var gaman fyrir okkur kennarana að fylgjast með þróunni í samræðum barnanna á meðan á þetta ferli stóð yfir. Í byrjun verkefnisins var umræðan mest á þá leið að líkamar okkar væru svo til eins þ.e. að við værum öll eins uppbyggð að innan þó að sumir væru litlir og aðrir stórir. Það var svo ekki fyrr en þegar kom að klæða „manneskjuna“ sem að þau fóru að velta kynferði og staðalímyndum fyrir sér. Eitt af því skemmtilegasta við þetta verkefni fannst okkur kennurunum að sjá og heyra hugmyndir barnanna um kynin og hversu opin og lausnamiðuð þau voru. Í þeirra huga var ekkert eðlilegra en að tvö kyn væru saman í einum líkama. Framtíðin er björt!“

Aðstoðarskólastjórinn, Anna Jóna Guðmundsdóttir, til vinstri, afhendir fyrir hönd JAKÍ Sigríði Fossdal, deildarstjóra verðlaunin og viðurkenningarskjal.