Fengu vel af vænum þorski - MYNDIR
Ekki þarf alltaf langt til að komast í góðan afla. Gunnar Hannesson skipstjóri og hans menn á dagróðrabátnum Sæbjörgu EA 184 hafa reynt það upp á síðkastið; þeir lögðu trossur sínar út af Svalbarðseyri og komu jafnan með vel af vænum þorski að landi.
Gunnar hefur sótt sjóinn í 58 ár, alla tíð gert út frá Grímsey, en réri síðustu vikur frá höfuðstað Norðurlands. Akureyri.net fór út með þeim Gunnari í rauðabítið á þriðjudagsmorgun og ekki liðu nema 20 mínútur frá því lagt var úr höfn þar til komið var að trossum þeirra fjórum.
Þrír um borð auk Gunnars; Hannes Arnar sonur hans, Sigurður bróðir skipstjórans og Þór Vilhjálmsson, tengdasonur Gunnars. Þeir veiddu við Grímsey í vetur og út af Hvanndalabjargi utan Ólafsfjarðar fyrir páska en hafa lagt trossurnar á þessum slóðum upp á síðkastið. Komu með níu tonn að landi á mánudag, tæp 11 tonn á þriðjudag og tæp níu á miðvikudaginn – síðasta dag fyrir hrygningarstopp sem er til 1. maí.
Gunnar er fæddur á Akureyri en flutti 10 ára út í eyju og hefur verið á sjónum alla starfsævina. „Ég byrjaði 12 ára, gaufaði þá eitt sumar með pabba á trillu,“ segir hann og þar með var tónninn gefinn. Annað starf kom aldrei til greina, segir Gunnar. Hann verður sjötugur í haust en segist í raun ekki hafa velt því fyrir sér að hætta. „Drepst maður ekki ef maður hættir að vinna?“ spyr hann og hlær. Gunnar hefur stundað dagróðra alla tíð, fyrir utan eitt sumar sem hann var á loðnu. „Já, ég kann þessu vel – þegar fiskast vel!“
Sæbjörgin sem Gunnar stýrir nú, er sú þriðja í röðinni. Hann eignaðist þá fyrstu í félagi við föður sinn, Hannes Guðmundsson, og Gylfa Gunnarsson, en Gylfi keypti síðar annan bát og stofnaði eigin útgerð.
Gunnar rær alla jafna frá Grímsey sem fyrr segir og veiðir aðallega þorsk, ýsu og kola. „Við erum á dragnót á haustin og framundir jól, en annars á netum.“
Harla óvenjulegt er að veitt sé svo innarlega í firðinum en Gunnar segir mikinn fisk gjarnan ganga þangað á þessum árstíma. Þeir hafi veitt þarna í fyrravor, reyndar eftir 1. maí, og þá hafi afli einnig verið góður.
Um leið og löndun lýkur úr Sæbjörgu er aflinn keyrður til Húsavíkur þar sem hann fer í salt. „Við höfum selt GPG fiskverkun allan okkar vetrarafla í 20 ár,“ segir Gunnar. Fiskurinn fæst varla ferskari; um það bil klukkutíma eftir að aflanum er landað er hann kominn í vinnslu. Þá eru á að giska tveir og hálfur tími síðan síðasta trossan var dregin!
Ræs var um klukkan hálf fimm í nótt og löndun er lokið um tvöleytið. Allir halda sælir heim á leið og verða klárir í slaginn á ný á svipuðum tíma að morgni.
Takk fyrir túrinn, strákar!