Of seinn í brúðkaupið vegna Grikkjans Zorba
Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, minnist Jóns Torfa Snæbjörnssonar, föðurbróður síns, í óhefðbundnu Orrablóti sem birtist í dag.
Pistlar Orra Páls birtast á Akureyri.net annan hvern föstudag og þar lætur hann hugann jafnan reika til fortíðar í léttum dúr og gerir það vissulega í dag þótt í raun sé um minningargrein að ræða. Útför Jóns Torfa verður frá Grundarkirkju á morgun, laugardag.
Í pistlinum segir Orri meðal annars:
Nonni var ekki nema fjögurra ára þegar amma ól tvíbura, pabba og Sturlu, og það hefur ábyggilega sett mark sitt á æsku hans enda litlu bræðurnir með afbrigðum uppátækjasamir, að sögn. Fyrir vikið var Nonni iðulega við öllu búinn og þegar hann kom auga á lítið barn á öðrum bæjum spurði hann gjarnan: „Hvar er hinn?“
Síðar í pistlinum skrifar Orri Páll:
Nonni gat líka verið svolítið utan við sig. Fræg er sagan af því þegar hann ákvað að drepa tímann fram að brúðkaupi sem hann átti að mæta í og skella sér í bíó. Nonni áttaði sig á hinn bóginn ekki á því að myndin, um Grikkjann Zorba, var mun lengri en gengur og gerist og fyrir vikið varð hann of seinn í brúðkaupið.
Það getur komið fyrir bestu menn en hitt var verra, þetta var hans eigið brúðkaup.
Smellið hér til að lesa Orrablót dagsins