Fara í efni
Mannlíf

Norður í frí til að hlaupa 100 sinnum upp kirkjutröppurnar!

Guðríður Torfadóttir og Ragnhildur Eiríksdóttir efst í kirkjutröppunum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslendingar gera sér ýmislegt til dundurs í fríinu. Þeir sem verið hafa á faraldsfæti síðustu misseri hafa að mestu ferðast innanlands af augljósum ástæðum og það kann að verða algengast aftur í sumar. Tvær konur sem hlupu upp og niður frægustu kirkjutröppur landsins, við Akureyrarkirkju, vöktu töluverða athygli í dag og Akureyri.net komst að því að þær eru í fríi – gerðu sér raunar sérstaka ferð frá Reykjavík til þess að hlaupa 100 sinnum hvor þessa kunnu leið!

„Alveg satt, við komum norður sérstaklega til að gera þetta,“ sagði Ragnhildur Eiríksdóttir og hló, þegar blaðamaður truflaði þær augnablik efst í kirkjutröppunum og dró sannleiksgildi þess í efa! „Fólk fer til útlanda á skíði, er þetta ekki alveg jafn sniðugt?“ spurði þá Guðríður Torfadóttir, einkaþjálfari.

Þær kváðust hafa verið á Akureyri fyrir hálfum mánuði, hlaupið þá 10 ferðir hvor upp kirkjutröppurnar og voru að sögn afar ánægðar með afrekið. „Svo var okkur sagt að fótboltamaður sem var að koma sér í form eftir meiðsli hefði hlaupið 100 ferðir hér upp og gátum ekki annað en prófað það líka.“ 

Þær höfðu gaman af líkamsrækt dagsins, sögðu hana reyndar erfiða, en þó ekki. Fólk sem er duglegt í ræktinni ætti að skilja þá tilfinningu. 

Ragnhildur Eiríksdóttir og Guðríður Torfadóttir í Akureyrarsól dagsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.