„Nei sko, sólin er komin heim!“
Eftir nokkra sólarlitla daga en þó hlýja er sú gula mætt aftur á vaktina á Akureyri og hefur hlýjað fólki bæði í eiginlegri merki og um hjartarætur í dag. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína til Akureyrar þótt Ein með öllu hafi verið blásin af, en haldin er Ein með ýmsu, eins og Akureyri.net hefur leyft sér að kalla einu nafni þá litlu viðburði sem fram fara í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur.
Mjög góðu veðri er spáð alla helgina, sólin skín alla daga og hitinn verður hátt í 20 stig. Ekki kom veðrið í dag öllum á óvart – „Nei sko, sólin er komin heim!“ sagði glaðbeittur bæjarbúi sem blaðamaður hitti í miðbænum í dag...
Ýmislegt er um að vera í bænum, til dæmis er lítið tívólí á flötinni neðan við Samkomuhúsið, þar sem meðal annars eru vatnaboltar eins og sjá má á myndinni að neðan. Á morgun fer fram svokölluð Akureyri.bike áskorun, þar sem hjólaðar verða fimm brekkur í Eyjafirði og keppt um titlana fjallkóngur og fjalldrottning. Markaður er á Ráðhústorgi, handverks- og hönnunarmessa er alla dagana í sal Rauða krossins við Viðjulund og Hjólreiðahátíð Greifans, sem verið hefur alla vikuna með fjölbreyttri keppni, lýkur á morgun, svo eitthvað sé nefnt.